Nýjasta ísbúðin á höfuðborgarsvæðinu er Brynjuís í Kópavogi, nánar tiltekið í Engihjalla 8, en þessi nýja og glæsilega ísbúð var opnuð í byrjun apríl á þessu ári. Allt frá árinu 1939 hefur Brynjuís verið til húsa í gamla bænum á Akureyri, í krúttlegu húsnæði við Aðalstræti 3. Íslendingar hafa lengi haft dálæti á þeirri ísbúð, jafnt heimamenn sem ferðamenn er eiga leið um höfuðstað Norðurlands, en ísinn sjálfur hefur verið óbreyttur í áratugi – nákvæmlega eins og Íslendingar vilja hafa hann. Það er þessi sami gamli, góði Brynjuís sem boðið er upp á í nýju ísbúðinni í Engihjalla svo nú getur fólk á höfuðborgarsvæðinu loksins gætt sér á Brynjuís hvenær sem er.
Hjá Brynjuís snýst allt um ísinn sjálfan. Hann er búinn til á staðnum eftir uppskrift sem fylgt hefur ísbúðinni frá upphafi. En ísinn gerir sig ekki sjálfur, það þarf frábært starfsfólk til að búa hann til og þjónusta viðskiptavininn. Brynjuís hefur verið lánsöm ísbúð hvað það varðar að líklega er leitun að annarri eins búð sem hefur jafn traust og gott starfsfólk og verið hefur á Akureyri til áratuga.[[A42245827C]]
Ísbúðin í Engihjallanum fer afar vel af stað hvað þetta varðar. Mjög auðveldlega gekk að manna ísbúðina traustu og jákvæðu starfsfólki sem er tilbúið að leggja sig fram við að búa til sem besta upplifun viðskiptavina af Brynjuísnum. Í Engihjallanum fékk Brynjuís afar gott húsnæði, rétt við stofnbraut (Nýbýlaveg) sem gerir aðgengi að ísbúðinni gott. Bílastæði eru mörg við Engihjallann.
Brynjuís er á horninu í húsnæðinu, á jarðhæð, það er rými með stórum gluggum, góðum nágrönnum og í góðu hverfi sem er í mikilli uppbyggingu. Það eru jákvæðir straumar sem hafa komið frá Kópavogsbæ og nágrönnum nýju ísbúðarinnar. Markmiðið er að taka höndum saman með þessum aðilum og gera gott hverfi frábært hverfi. Kópavogsbær hefur mikinn metnað fyrir hönd hverfisins og ætlar að leggja sterka hönd á plóg.