Verslanir Mamma veit best og JOYLATO eru náskyldar, í senn líkar og ólíkar. Mamma veit best er með mikið úrval lífrænna og náttúrulegra bætiefna og aðrar heilsuvörur, til dæmis lífrænar sápur, en JOYLATO selur einstakan og heilsusamlegan ís. Verslanirnar hafa lengi verið reknar í sama húsnæði að Laufbrekku 30 Kópavogi, Dalbrekkumegin; og við afar góðan orðstír. Núna hafa verið opnaðar nýjar verslanir Mamma veit best og JOYLATO að Njálsgötu 1, og er óhætt að segja að þeim hafi verið tekið fagnandi. Nokkrum dögum eftir opnun seldist til dæmis allt upp í JOYLATO og daginn eftir var því aðeins opið í fjóra tíma. Hins vegar er stefnt að því að hafa báðar verslanirnar opnar frá 11 til 23 í sumar.
Eigandi JOYLATO, Pranava Rúnar Gígja, segir að viðskiptavinahópurinn fyrstu dagana sé til jafns Íslendingar og erlendir ferðamenn. Verslun Mamma veit best að Njálsgötu er töluvert minni en verslunin að Laufbrekku í Kópavogi en með nánast sama vöruúrval. JOYLATO að Njálsgötu er hins vegar viðlíka stór eða jafnvel aðeins stærri en verslunin í Kópavogi.
Bæði Mamma veit best og JOYLATO tengjast Sri Chinmoy hreyfingunni á Íslandi, sjá nánar hér. Um stefnu hreyfingarinnar segir meðal annars á vefsíðu hennar:
„Heimspeki Sri Chinmoy og Sri Chinmoy miðstöðvarinnar er einföld – til að bæta heiminn verðum við að byrja að bæta okkur sjálf. Aðeins þegar hver einstaklingur býr yfir eiginleikum friðar, ljóss og sælu, getum við átt heim þar sem sátt, samlyndi og bræðralag eru ríkjandi. Þar af leiðandi byggir starfsemi Sri Chinmoy miðstöðvarinnar á þeirri heimssýn að hver einstaklingur geti öðlast hamingju með því að finna hana fyrst innra með sér.“
Um JOYLATO segir Pranava Rúnar Gígja: „Þetta er andlegt fyrirtæki og þessi rekstur gengur ekki út á græðgi heldur að þjóna fólki sem best með sem bestu fáanlegum vörum. Við kappkostum að bjóða upp á það besta úr íslenskri náttúru og lífrænum vörum. Við hönnum alla okkar ísa sjálf og framleiðum allt á staðnum. Við notum fljótandi köfnunarefni, N2, til að frysta ísinn. Það leiðir til þess að ísinn verður silkimjúkur og það myndast ekki ískristallar í honum og við getum þ.a.l. alltaf verið með ferska vöru.“
JOYLATO hefur sérstöðu meðal ísrétta því hægt er að fullyrða að hann sé beinlínis hollur, því í hann eru notuð lífræn hráefni og íslensk hráefni beint úr náttúrunni en engin fyllingarefni, bindiefni, maískornasíróp, hvítur sykur eða önnur gerviefni. Að sögn Rúnars er stefnt að því að auka enn á hollustu íssins. En það kemur í ljós um síðir. Sjá nánar um JOYLATO hér.
Mamma veit best er allt í senn heildsala, verslun og netverslun. Fólk getur ýmist nálgast vörur fyrirtækisins í flestum apótekum og heilsubúðum landsins, í verslunum að Laufbrekku 30 í Kópavogi og nýju versluninni að Njálsgötu 1, eða í netversluninni þar sem einnig má finna ítarlegar upplýsingar um vörurnar og fyrirtækið.
Mamma veit best hefur þann tilgang að færa fólki það besta af lífrænum heilsuvörum, bætiefnum og snyrtivörum víðs vegar að úr heiminum. Nafn fyrirtækisins vísar í þá trú að Móðir jörð viti hvað er best fyrir börnin hennar og hjá henni getum við fundið þær lausnir sem við leitum það. „Með það að leiðarljósi gerum við okkar besta til að virða og heiðra móðurina sem við deilum öll, Jörðina,“ segir á vefsvæði Mamma veit best.