fbpx
Sunnudagur 19.janúar 2025
FókusKynning

Edda Björk og ánamaðkarnir

Búa í boxi í eldhúsinu – Lifa á matarleifum og pappír

Ritstjórn DV
Miðvikudaginn 4. maí 2016 07:15

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í eldhúsi Eddu Bjarkar Hafstað Ármannsdóttur í miðbænum virðist allt ósköp venjulegt við fyrstu sýn. En látlaus grár plastkassi sem stendur á gólfinu í einu horninu gerir það samt frábrugðið flestum eldhúsum á landinu. Í kassanum búa nefnilega nokkur hundruð ánamaðkar sem aðstoða Eddu við að farga lífrænu rusli sem fellur til við eldamennskuna.

„Ég hafði lengi verið að flokka plast og pappír, líklega lengur en áratug, og fara í grenndargáma, en það pirraði mig alltaf að vera ekki með safnhaug fyrir matarleifar þar sem ég bjó ekki svo vel að hafa garð.“

Edda segir að þetta sé stóri gallinn við að hafa ekki eigin garð. „Einn daginn áttaði ég mig á því að 95% mannkyns búa líklega við þannig aðstæður og að einhver hlyti nú að hafa fundið lausn á þessu. Eftir leit á netinu fann ég svo upplýsingar um ánamaðka í eldhúsum.“

Maðkarnir hennar Eddu kallast haugánar (e. Red wiggler), og hafa lengi fundist í íslenskri náttúru. Þeim líður best í hita yfir 10 gráðum og hafa fundist á hitasvæðum, til dæmis á Flúðum og í Borgarfirði. Edda segir að þar sem maðkarnir eru hluti af íslenskri náttúru sé lítið mál að losa sig við þá ef maður gefst upp á að hafa þá í eldhúsinu. „Það er í góðu lagi að henda þeim bara út í skurð. Ef þeir væru innfluttir væri það hins vegar ekki í lagi.“

Nærast á matarleifum og pappír

Edda byrjaði með nokkra orma sem hún fékk gefins. Hún segir lítið mál að byrja, en það sem þarf til er kassi með góðri loftun og afrennsli. „Fólk er með ýmsar útgáfur af svona kössum. Ég er sjálf með kassann á gólfinu í eldhúsinu, en færi hann stundum inn í þvottahús ef ég fæ viðkvæma matargesti í heimsókn.“

Ormarnir eru fóðraðir á stórum hluta þess sem fellur til í eldhúsinu, til að mynda grænmeti, kaffi, tei, eggjaskurn og sumum ávöxtum. „Þeir vilja ekki sítrusávexti og það þýðir lítið að gefa þeim lauk og hvítlauk. Þessi hluti fóðursins er kallaður græni hlutinn. Til viðbótar þurfa þeir brúnan hluta, en hann kemur úr pappír sem fellur til á heimilinu, og laufblöðum sem ég safna í garði nágrannanna. Þeir tæta í sig dagblöð, eggjabakka og alls konar pappír sem ekki er með plasti eða öðrum efnum. Þeir borða ekki sjálfan matinn heldur örverurnar sem vaxa á matnum. Þeir tæta þetta í sig og framleiða fínustu moltu.“

Ekki meiri lykt en af stofuplöntum

En fylgir þessu engin lykt? „Maður setur hvorki kjöt, mjólkurvörur né annað sem úldnar í kassann. Ef passað er upp á það er í raun ekki meiri lykt af þessu en venjulegum pottaplöntum. Það geta auðvitað fylgt þessu ávaxtaflugur, en það má komast hjá þeim ef maður frystir afgangana fyrst í poka. Ég er með plastbox sem ég safna afgöngum í og tæmi reglulega í maðkaboxið.“

Edda segir að ormabúskapur sé kannski á milli þess að eiga plöntu og gæludýr. „Það eru ákveðnar tilfinningar í spilinu. Ég ber sterkari taugar til ormanna minna en stofublómanna og finnst mikilvægt að þeim líði vel. Þetta er samt ekkert á við að eiga kött eða hund. Það er heilmargt jákvætt við þetta. Maður getur verið með minni tunnu fyrir heimilissorp og sparað pening. Moltan er svo frábær áburður fyrir ýmiss konar ræktun.“

Á Facebook stýrir Edda síðu áhugafólks um ormabúskap, Moltugerð með ánamöðkum, og er síðan öllum opin. „Ég ráðlegg þeim sem eru spenntir fyrir þessu að leita sér upplýsinga og finna leið sem hentar þeirra búsetu. Það þarf að byrja hægt og rólega og fóðra maðkana passlega. Á Facebook-síðunni deilum við alls konar upplýsingum sem nýtast fólki í þessum hugleiðingum.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Kynning
06.06.2024

Frumsýna nýjan Škoda Kodiaq á laugardaginn

Frumsýna nýjan Škoda Kodiaq á laugardaginn
Kynning
06.06.2024

Frumsýning – Nýr Škoda Kodiaq

Frumsýning – Nýr Škoda Kodiaq
Kynning
26.01.2024

Vetrarsýning Heklu – Frumsýnum Volkswagen Touareg og rafmagnaðan ID.7

Vetrarsýning Heklu – Frumsýnum Volkswagen Touareg og rafmagnaðan ID.7
Kynning
23.01.2024

Tífalt meira magn af „bótoxi jurtaríkisins“ í nýju serumi frá Nivea

Tífalt meira magn af „bótoxi jurtaríkisins“ í nýju serumi frá Nivea
Kynning
16.11.2023

Það geta allir fundið eitthvað fyrir jólaundirbúninginn á Svörtudögum Boozt

Það geta allir fundið eitthvað fyrir jólaundirbúninginn á Svörtudögum Boozt
Kynning
08.11.2023

Regus horfir til frjálsrar framtíðar frá Kirkjusandi

Regus horfir til frjálsrar framtíðar frá Kirkjusandi