185 metra rými í Eiffel-turninum verður breytt í glæsiíbúð í sumar
Ferðalöngum býðst nú einstakt tækifæri til að gista frítt í París á ekki ómerkilegri stað heldur en í Eiffel turninum.
Um er að ræða 185 fermetra rými sem er venjulega notað sem móttaka fyrir þá sem vilja njóta útsýnis yfir borgina. Því verður breytt í glæsiíbúð í 4 daga í júní og júlí.
Gistingin í Eiffel turninum eru verðlaun í leik á vegum hótelbókunarsíðunnar Home Away og er í tengslum við Evrópukeppnina í knattspyrnu sem verður í Frakklandi í sumar.
„Við teljum að Eiffel-turninn sé fullkominn staður til að skapa ógleymanlegar minningar. Þetta er án efa best staðsetta íbúð sem við getum boðið upp á í borginni.“
Þetta segir Brian Sharples, talsmaður Home Away, í samtali við USA Today. Íbúðin rúmar 5 einstaklinga sem þýðir að sigurvegararnir geta boðið fjórum vinum fría gistingu í eina nótt. Að auki verður þeim boðið í lúxus kvöldverð í íbúðinni, allur ferðakostnaður verður greiddur sem og þrjár nætur á glæsihóteli í París. Dagarnir sem eru í boði eru 23. júní, 28. júní, 4. júlí og 8. júlí.
Allir geta tekið þátt í leiknum . Það eina sem þú þarft að gera er að heimsækja þessa síðu og svara „Hvað myndir þú og fjölskylda þín gera ef þið ættuð Eiffel-turninn í eina nótt?“ Keppninni lýkur á miðnætti þann 5. júní næstkomandi.