Metnaðarfullt barna- og unglingastarf
Svæði félagsins er annars vegar í landi Garðabæjar og hins vegar í landi Kópavogs – eins og nafnið ber með sér. Vallarstæðið er í Vetrarmýri í landi Vífilsstaða í Garðabæ og í Leirdal ofan við Salahverfi í Kópavogi.
Að sögn Úlfars Jónssonar, íþróttastjóra GKG, bjóða kennarar klúbbsins upp á fjölbreytta þjónustu, eins og t.d. einkatíma, hóptíma og hjónatíma. Ýmiss konar námskeiðahald fer fram allt árið en oftast er um að ræða kvöld- og helgarnámskeið, auk æfingahópa sem hægt er að taka þátt í. Nánari upplýsingar er að finna á heimasíðu GKG, en einnig er velkomið að hafa samband við Úlfar (ulfar@gkg.is).
„Æfingasvæðið okkar er stórt og við erum mjög stolt af nýrri inniaðstöðu okkar sem gerir okkur kleift að stunda íþróttina allt árið um kring. Þar er hægt að pútta, vippa, slá í net og spila golf í fullkomnum golfhermum. Öll aðstaða til golfiðkunar á svæði klúbbsins er með því besta sem gerist á landinu,“ segir Úlfar.
Úlfar bendir á að í GKG er rekið metnaðarfullt barna- og unglingastarf. „Um 2.000 félagar eru nú í GKG og um 600 talsins eru börn og unglingar. Af öllum golfklúbbum á landinu telur GKG flest ungmenni yngri en 16 ára. Það er mjög ánægjulegt að hafa úr svo miklum efnivið að moða til framtíðar. Fyrir félagsmenn 8–21 árs eru í boði æfingar rúmlega 10 mánuði á ári. Vetraræfingar hefjast í byrjun nóvember ár hvert og sumaræfingum lýkur í kringum miðjan september. Vikulegu golfleikjanámskeiðin okkar, sem eru í boði yfir sumartímann, hafa verið gríðarlega vinsæl undanfarin ár og reynst mjög gott fyrsta skref til að kynnast golfinu.
Við leggjum áherslu á að vera í fararbroddi hvað varðar aðbúnað og atlæti, jafnt gagnvart afreksfólki sem og þeim sem skemmra eru á veg komnir. Við höfum líka lagt áherslu á að fjölga stúlkum sem leika golf og hefur það skilað góðum árangri,“ segir Úlfar og hvetur áhugasama til þess að fylgjast með GKG á Facebook.
Golfklúbbur Kópavogs og Garðabæjar
Vífilstaðavegi, 210 Garðabær.
Sími: 565 – 7373 www.gkg.is