Skráningar á sumarnámskeið hafin – Fjölmargir þekktir leikarar og leikhúsfólk koma þar að kennslu
Einkunnarorð Leynileikhússins er Leikgleði enda eru gleði og frumsköpun rauður þráður í gegnum öll námskeiðin sem Leynileikhúsið heldur. Leikstjórinn og leikarinn Agnar Jón Egilsson stofnaði þessa starfsemi árið 2004 og hefur hún dafnað æ síðan. Fjölmargir þekktir leikarar og leikhúsfólk koma þar að kennslu.
Á sumarnámskeiðunum er að venju unnið með skapandi aðferðir, ímyndunarafl nemenda, spuna, persónusköpun og samvinnu. Um er að ræða vikulöng námskeið sem fara fram í Kramhúsinu og Spennistöð Austurbæjarskóla í Reykjavík og í Bæjarbíói í Hafnarfirði. Námskeiðin eru færð út á græn svæði eins mikið og veður leyfir. Með frumsköpun að leiðarljósi er farið í gegnum grunnatriði leiklistar og sköpunar. Í gegnum leiki, æfingar og spuna er unnið sérstaklega með hlustun, samvinnu, einbeitingu og tjáningu. Hugmyndum þátttakenda er fundinn farvegur og sjálfstraust þeirra og framkomuhæfileikar byggðir upp.
En hvað varð til þess að Agnar Jón stofnaði Leynileikhúsið?
„Það er og verður alltaf mikilvægt að til sé grundvöllur fyrir sköpunarþörf einstaklinga, sér í lagi fyrir börn. Leynileikhúsið er stofnað til að mæta þessari brýnu þörf og ef til vill til að uppfylla þörf sem ég fékk ekki uppfyllta sem barn sjálfur. Þörfina fyrir að fá að vera skapandi barn með trylltar hugmyndir sem fá flug í skipulögðu starfi. Reynslan hefur svo kennt okkur hjá Leynileikhúsinu með árunum að það þarf ekki að kenna einu einasta barni að vera skapandi, það þarf einungis að búa til ramma utan um sköpunina og sjá til þess að það sé pláss til að allir blómstri og þroskist í henni. Auðvitað er leiktækni mikilvægur þáttur af starfseminni en hún skilar sér best þegar tjáningin er óheft og full af leikgleði. Það er líka þá sem lýðræðislegi hluti starfsins virkar, að skoðanaskipti leiði að sameiginlegri ákvörðun hópsins um leikverkin sem æfð eru.“
Hvernig börn koma á þessi námskeið? Væntanlega ólík? Er hæfnin mismikil eða snýst þetta ekki um hæfileika heldur leik og þroska?
„Allar gerðir einstaklinga koma á námskeið Leynileikhússins. Ef leitað er að samnefnara nemendanna er það gleðin sem felst í því að skapa eitthvað í samvinnu við aðra, stíga inn í ímyndaða veröld og láta ævintýrið taka yfir. Leiklist er svolítið eins og trampólín. Það er vonlaust að vera í fýlu þegar maður skoppar á trampólíni og líka þegar maður stígur inn í frjálsa sköpun í leikhúsvinnu. Enda eru engin takmörk fyrir því hvert ímyndunaraflið getur farið með mann.“
Núna hefur verið opnað fyrir skráningar á sumarnámskeið Leynileikhússins. Nánari upplýsingar er að finna á vefnum www.leynileikhusid.is
Leynileikhúsið
Skólavörðustíg 6b
101 Reykjavík
Símar: 551 1742 og 864 9373
Netfang: info@leynileikhusid.is
Heimasíða: www.leynileikhusid.is