fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
FókusKynning

Þetta eru áfangastaðirnir sem allir verða að sjá

Áfangastaðirnir sem eru með bestu einkunnina á TripAdvisor

Einar Þór Sigurðsson
Þriðjudaginn 17. maí 2016 21:50

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

TripAdvisor hefur tekið saman þá áfangastaði, eða kennileiti, um allan heim sem ferðalangar verða að sjá minnst einu sinni á ævinni. Ferðalangar geta gefið stöðunum einkunn með einfaldri aðferð á vefnum og eru staðirnir sem birtast hér að neðan þeir sem skorað hafa hæst.

Þeir áfangastaðir sem raða sér í efstu sætin eru heimsfrægir og trónir Machu Picchu í Andes-fjöllum á toppi listans. Þá er Angkor Wat í Kambódíu í 3. sæti og Taj Mahal í Indlandi í 5. sætinu.

1. Machu Picchu, Perú

Það þarf ekki að koma á óvart að Machu Picchu er í efsta sæti listans. Hér er um að ræða forna borg sem byggð var af Inkaveldinu, keisaraveldi indíána í Andesfjöllum þar sem nú er Perú. Veldi Inkanna stóð frá tólftu öld og fram á þá sextándu. Erfitt er að komast að Machu Picchu og þurfa ferðalangar að leggja á sig langa göngu til að komast að hinni týndu borg eins og hún er kölluð. Þeir sem heimsótt hafa Machu Picchu eru þó flestir sammála um að ferðalagið sé vel þess virði. Borgin stendur í rúmlega 2.400 metra hæð yfir sjávarmáli.


2.) Sheikh Zayed-moskan, Abu Dhabi, Sameinuðu arabísku furstadæmunum

Sheikh Zayed-moskan er í Abu Dhabi, höfuðborg Sameinuðu arabísku furstadæmanna. Moskan er feiknastór og falleg eins og myndin hér til hliðar sýnir glögglega. Moskan gegnir veigamiklu hlutverki í trúarlífi íbúa Abu Dhabi, enda er hún stærsta moska furstadæmanna. Hún var byggð árin 1996 og lauk smíði hennar árið 2007.


3.) Angkor Wat, Siem Reap, Kambódíu

Sólarupprás í Siem Reap er engu lík en glitrandi morgunbirtan á rústum Angkor Wat lætur engan ósnortinn. Fornar byggingar borgarinnar eru með stærstu trúarmannvirkjum heims. Þessi mannvirki ásamt konunglegu borginni Angkor Thom frá 12. öld eru meðal helstu aðdráttarafla Siem Reap. Angkor Wat er stærsta trúarlega minnismerki heims og var byggt snemma á 12. öld.


4.) Péturskirkjan, Róm, Ítalíu

Péturskirkjan í Róm er staður sem enginn sem elskar framandi áfangastaði ætti að láta fram hjá sér fara. Péturskirkjan er basilíka páfans í Vatíkaninu og var hún reist á rústum eldri kirkju. Lokið var við smíði hennar árið 1626 og skipar kirkjan sérstakan sess hjá kaþólskum. Fjórar milljónir manna heimsækja kirkjuna á ári hverju.


5.) Taj Mahal, Indlandi

Höllin glæsilega er eitt þekktasta kennileiti Asíu og án nokkurs vafa það þekktasta á hinu ógnarstóra Indlandi. Höllin, sem stendur í Agra, var reist á árunum 1630 til 1653, en keisarinn Shah Jahan lét byggja höllina í minningu um eiginkonu sína. Fílar voru meðal annars notaðir til að flytja byggingarefni í höllina sem komu frá gjörvallri Asíu. Í höllinni var notað ógrynni af gulli og demöntum. „Mesta byggingarafrek í sögu arkitektúrsins,“ segir einn notandi TripAdvisor.


6.) Moskan í Cordoba á Spáni

Borgin Cordoba á Spáni er að margra mati vanmetin, enda er í henni að finna mikil menningarverðmæti. Eitt þeirra er moskan í borginni sem er sú þriðja stærsta í heimi. Byggingu moskunnar lauk árið 987 og í fyrstu skiptu kristnir og múslimar kirkjunni á milli sín. Múslimar keyptu annan helminginn af kristnum en árið 1236 komst hún aftur í hendur kristinna. Sagan þessa magnaða mannvirkis er lengri og ítarlegri en hér er talið upp.


7.) Blóðkirkjan í Sankti Pétursborg, Rússlandi

Blóðkirkjan, eða Church of the Savior on Spilled Blood, er stórfengleg kirkja í alla staði, en bygging hennar tók 24 ár. Smíði hennar lauk árið 1907. Eins og myndin sýnir er kirkjan litskrúðug með fallegum turnum og myndskreytingum. Kirkjan var byggð á sama stað og Alexander II Rússlandskeisari var veginn á árið 1881. Kirkjan er þekktasti kennileiti Pétursborgar.


8.) Alhambra, Granada, Spáni

Alhambra, eða rauða virkið eins og það kallast, er eitt þekktasta kennileiti Granada á Spáni. Um er að ræða einskonar höll og virki sem márískir furstar reistu á 14. öld. Höllin er öll hin glæsilegasta og til marks um áhrif íslamskrar byggingarlistar á Spáni. Á 18. og 19. öld var viðhaldi á kirkjunni ábótavant og var hún á góðri leið með að grotna niður. Árið 1870 komst Alhambra á lista yfir þjóðargersemer Spánar og í kjölfarið var hafist handa við að endurbyggja hana. Alhambra hefur verið á heimsminjaskrá UNESCo frá árinu 1984.


9.) Lincoln-minnismerkið, Washington, Bandaríkjunum

Allir sem heimsækja Washington, höfuðborg Bandaríkjanna, verða að gera sér ferð að Lincoln-minnismerkinu (e. Lincoln Memorial). Svæðið í kring er einnig geysilega fallegt eins og meðfylgjandi mynd sýnir og er vinsælt að slaka á við vatnið sem teygir sig endilangt yfir garðinn. Um 3,6 milljónir manna heimsækja svæðið á hverju ári.


10.) Dómkirkjan í Mílanó, Ítalíu

Dómkirkjan í Mílanó er í 10. Sæti á listanum og er að margra mati ein fallegasta kirkja heims. Hafist var handa við byggingu kirkjunnar árið 1.386 og lauk smíði hennar árið 1965. Kirkjan er 108 metra há og er vinsælt að fara upp á topp kirkjunnar og njóta útsýnisins yfir borgina.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Kynning
27.03.2024

„Algjört saunaæði runnið yfir landsmenn“

„Algjört saunaæði runnið yfir landsmenn“
Kynning
19.03.2024

Þú færð allt fyrir ferminguna á Boozt.com

Þú færð allt fyrir ferminguna á Boozt.com
Kynning
29.10.2023

Flýgur með Íslendinga til paradísarinnar Punta Cana í myrkasta skammdeginu – „Ég skildi við kallinn en ekki landið“

Flýgur með Íslendinga til paradísarinnar Punta Cana í myrkasta skammdeginu – „Ég skildi við kallinn en ekki landið“
Kynning
27.10.2023

Jólabjór og opið til miðnættis í Nýju Vínbúðinni

Jólabjór og opið til miðnættis í Nýju Vínbúðinni