fbpx
Þriðjudagur 26.nóvember 2024
FókusKynning

Á nýjum lendum, loft og jörð

Kynning

– Spjall við Soffíu Sæmundsdóttur

Ritstjórn DV
Fimmtudaginn 28. apríl 2016 06:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Soffía Sæmundsdóttir opnar einkasýningu sína Loft – jörð, n.k. laugardag 23. apríl, í Gallerí Fold við Rauðarárstíg. Þar sýnir hún um 20 ný olíumálverk sem öll eru máluð á tré. Ég hitti Soffíu og spurði hana út í sýninguna, myndlistina og lífið.

Soffía segir mér að hún hafi ekki einu sinni tölu á því lengur hve sýningarnar hennar séu orðnar margar en henni finnist alltaf best að eiga bókaða sýningu og að það sé henni mikilvægt að sýna verk sín reglulega. Það veiti aðhald og geri þá kröfu til hennar að hún hugsi um ólík rými, samhengi verkanna og oft skapi hún heildstæðan myndheim, þótt það sé ekki alltaf svo. Hún segir að um leið og hún sé búin með eina sýningu þá sé hún yfirleitt farin að huga að þeirri næstu.

Þessa sýningu sem nú birtist okkur hafi hún unnið í vetur og hugsi sem heildstæðan myndheim. „Mér finnst soldið eins og ég sé búin að vera undir feldi í allan vetur. Þessi sýning er sérstaklega mikið þannig því mig langaði að skapa ákveðinn hugarheim.“

Nýr tón í myndverkunum á sýningunni

Mynd: Johann Agust Hansen

Þeir sem þekkja til myndlistar Soffíu sjá strax að myndirnar eru úr smiðju hennar en hér kveður þó við nýjan tón. Myndirnar eru hrárri en oft áður, litirnir tærari og efniviðurinn greinilegri. Soffía segir að kveikjan að þessari sýningu sé margþætt. Hún hafi komist yfir einstaklega fallegar viðarplötur með mörgum glæsilegum kvistum sem hafi kallað á hana. Hún lagði sérstaka áherslu á að leyfa efniviðnum að njóta sín í verkunum og því er gróf áferð viðarins enn greinileg á myndfletinum. Margir kvistarnir hafi tekið á sig mynd ferðalangana og þannig ráðið bæði myndefninu og myndbyggingunni. Þannig hafi viðarplöturnar sjálfar nánast kallað fram myndefnið. Myndirnar endurspegli þó alltaf tilveru listamannsins hverju sinni og nú í vetur hafi margt komið til sem hafi hreyft við henni og fengið hana til að velta lífinu fyrir sér.

Mynd: Johann Agust Hansen

„Undanfarið ár hefur mér fundist veröldin vond og ýmislegt komið upp sem hefur hrist hana til. Maður var að hlusta á fréttir og þar bar hæst málefni flóttamanna og ýmislegt því tengt. Mér fannst allt í einu ferðalangarnir mínir svolítið takmarkaðir og mig langaði að víkka veröld þeirra út. Núna hafa þeir kannski í sér sterkari trúarlegan streng. Þeir eru í kuflum, þeir hafa yfir sér birtu – ég veit ekki hvort hægt sé að kalla það geislabaug eða bara eitthvað gott í kringum sig. Og veröld þeirra er óræðari heldur en oft áður. Í vetur missti ég fleiri en eina góða vinkonu skyndilega með stuttu millibilli og ég hef verið að vinna úr því og þess sér líka stað. Maður fer að hugsa um hvað er og hvað maður á og hvers virði það er. Myndefnið er alltaf persónulegt, jafnvel þótt maður geri sér ekki alltaf grein fyrir því sjálfur fyrr en seinna meir.“

Mynd: Johann Agust Hansen

Á sýningunni eru tvær stórar burðarmyndir þar sem kunnuglegt landslag Soffíu tengir okkur við jörðina en hinar myndirnar eiga sér stað í loftkenndara rými. Þar hafa ferðalangarnir hennar umbreyst í verur sem gætu verið helgar. Verkin kallast bæði á við trúarleg málverk fyrri tíma og íkona sem gjarna er málaðir á tré. Þótt fígúrurnar séu loftkenndari en áður vill Soffía ekki skilgreina það nánar. Það sé hlutverk áhorfendanna að túlka fyrir hvað þeir standi og til þess eigi þeir að fá fullt frelsi.

Arfur frá grafíkinni skín í gegn

Soffía er einnig þekkt fyrir grafíkverk sín og það er ekki laust við að áhrifa frá þeim gæti í leik hennar að efniviðnum. „Hráefnið býður upp á þennan leik,“ segir Soffía og bendir á að myndirnar séu einnig orpnar og undnar. Hún segir líka að hún væri alls ekki viss um að hún myndi mála með þeim hætti sem hún gerir ef hún hefði ekki bakgrunninn úr grafíkinni þar sem platan og það sem á henni er skipti svo miklu máli. Auk þess leggur hún mikið upp úr máluðu undirlagi sem hún vinnur ofan í sem sé líka arfur frá grafíkinni. Hún segist oft vera með mjög skæra liti fyrst sem hún tóni svo niður. Í vetur hafi hún reynt að vinna myndirnar minna en oft áður og leyfa bæði viðnum og sterku litunum að skína í gegn. „Það er það sem mér hefur fundist erfiðast við þessa sýningu, að leyfa myndunum bara að vera án þess að fínvinna þær meira,“ segir Soffía og hlær. Það virðist þó hafa lukkast vel.

Sýning Soffíu Loft – jörð stendur til 7. maí.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Kynning
27.03.2024

„Algjört saunaæði runnið yfir landsmenn“

„Algjört saunaæði runnið yfir landsmenn“
Kynning
19.03.2024

Þú færð allt fyrir ferminguna á Boozt.com

Þú færð allt fyrir ferminguna á Boozt.com
Kynning
29.10.2023

Flýgur með Íslendinga til paradísarinnar Punta Cana í myrkasta skammdeginu – „Ég skildi við kallinn en ekki landið“

Flýgur með Íslendinga til paradísarinnar Punta Cana í myrkasta skammdeginu – „Ég skildi við kallinn en ekki landið“
Kynning
27.10.2023

Jólabjór og opið til miðnættis í Nýju Vínbúðinni

Jólabjór og opið til miðnættis í Nýju Vínbúðinni