Stærsta blætisball í Evrópu – DV var á staðnum
Wasteland er risastórt blætisball (fetish-partí) sem haldið er tvisvar á ári í Amsterdam. Þar koma saman 3.000–4.000 perrar, dansa, drekka, daðra, stunda BDSM-leiki og jafnvel venjulegt kynlíf eina kvöldstund.
Blaðakona DV hafði spurnir af viðburði þessum í heimsókn hjá vinkonu sem búsett er í borg syndanna, Amsterdam. Henni þótti með öllu ótækt að ég hefði aldrei mætt, enda væri um að ræða stærsta blætisball í allri Evrópu. Auðvitað ákvað ég að skella mér strax og færi gafst og líta inn í lostafenginn latexheim þar sem fólk kastar frá sér áhyggjum og klæðnaði hversdagsins og leyfir órunum að taka yfir.
Bart kemur og sækir blaðamann. Hann er mjög hollenskur í útliti, hávaxinn, ljóshærður með krullur. Hann er fasteignabraskari, nýlega skilinn því konan hans var ekki sammála þeim lífsstíl sem hann vildi tileinka sér. „Mér finnst gaman að fara í stór danspartí, og reyni að gera það alla vega tvisvar í mánuði. Ég fæ mér líka ecstasy einu sinni í viku, hún fílar hvorugt. Svo vil ég eiga kærustur, eða hitta þær konur sem mig langar til hverju sinni. Hún var alls ekki til í opið samband.“ Já, misjafnt er mannanna bölið, hugsa ég, og spyr hann hvort hann sakni stundum fjölskyldulífsins. „Jú, reyndar geri ég það,“ segir Bart, og rennir flíspeysunni niður, „auðvitað var notalegt að hafa fjölskyldu og stöðugleika, en hitt er bara of mikilvægt fyrir mig.“ Hann segir mér að eiginkonan hafi ekki verið hið minnsta ævintýragjörn í kynlífi: „Við stunduðum ágætis kynlíf, en allt var afar venjulegt. Ég nýt mín betur núna þegar ég fæ að stunda fetish-partí og klúbba, og hleypa út drottnaranum innra með mér.“ Bart er 49 ára. Grár fiðringur? Kannski.
Við keyrum á staðinn sem er í verksmiðjuhverfi í útjaðri borgarinnar. Bart er ennþá í flíspeysu og kakíbuxum en hefur tekið leðurbuxur með sér í poka. „Þetta er einfalt fyrir mig. Ég fer bara í leðrið og það dugar.“ Blaðakona er í gegnsæjum blúndukjól sem hún notaði tvenn síðustu jól, en að þessu sinni hefur hún látið hjá líða að klæða sig í undirkjólinn sem hingað til hefur verið notaður með honum. Í stað þess er hún í ósköp látlausum svörtum nærfötum og sokkaböndum undir, og með fallegt fjaðraskraut um hálsinn. Dálítið eins og vonda stjúpa Mjallhvítar.
Utandyra loga eldar og rauður bjarmi lýsir upp iðnaðarhúsnæðið, sem gæti allt eins verið á Völlunum í Hafnarfirði. Við göngum inn í fortjald og förum í röð, sem minnir helst á öryggisleitina á Leifsstöð. Leitað er í töskum og sýnileg eiturlyf gerð upptæk. Ég kemst inn án vandkvæða. Næst göngum við inn í sal þar sem hugguleg tónlist ómar frá plötusnúði sem hefur stillt sér upp við hliðina á sölubás þar sem hægt er að kaupa ýmiss konar klæði. Svona ef einhver skyldi hafa gleymt pungbindinu heima, eða vanti skyndilega písk til að flengja einhvern ódælan gest. Við kaupum okkur aðgang að læstum skápum þar sem fjöldinn allur af „blætlum“ er að leggja lokahönd á klæðnað kvöldsins. Sumir eru naktir að bera á sig olíu eða jafnvel glimmer, aðrir fá hjálp til að reima á sig leðurbrynju eða korsett. Eftirvæntingin er nánast áþreifanleg.
Klæðnaður er lykilatriði á Wasteland. Á heimasíðu viðburðarins er lögð áhersla á að fólk klæðist því sem flokkast getur undir blætisbúninga (fetish-klæðnað). Undir það fellur leður, plast, latex, burlesque, goth, einkennisbúningar, keðjur, kaðlar, dýrabúningar, klæðskipti og að sjálfsögðu nekt. Dyravarsla er ströng, og í höndum svokallaðra dyratíka (e. doorbitches), sem eru tveggja metra dragdrottningar í korsettum, sokkaböndum og á himinháum hælum. Þær hafa vald til að meina hverjum sem er inngöngu, og skeyta engu um hvort viðkomandi hafi greitt aðgangseyri. Hver einasti gestur er grannskoðaður fyrir inngöngu, og þeim sem ekki uppfylla klæðareglur er miskunnarlaust vísað frá. Á undan mér í röðinni er kona í sokkaböndum, korsetti og látlausum jakka yfir. Dyratíkurnar horfa hneykslaðar á hana og senda hana til baka í búningsklefann til að losa sig við jakkann. Það er ekki laust við að ég finni fyrir örlitlu stressi þegar að mér kemur í röðinni, en með því að flassa sokkabandi, tekst mér að gleðja tíkurnar nægilega, og þær hleypa mér inn.
Við erum mætt snemma. Bart er búinn að taka ecstasy-töfluna sem hann smyglaði inn á staðinn í nærbuxunum sínum. Hann segir mér að líklega sé meira en helmingur gestanna á ecstasy. Hann er líka búinn að skipta um föt, er núna í leðurbuxum og ber að ofan. Kakíbuxur og flíspeysa bíða í búningsklefanum. Bart hverfur inn í mannhafið, og ég sé hann ekki meir.
Staðurinn er gríðarstór, og skipt í fjögur rými. Dansgólfin eru fjögur og mismunandi tónlist ómar úr gríðarstórum hátölurum. Í stærsta salnum er svið og pallar fyrir gógódansara. Uppi á einum pallanna er karl sem minnir mig á Bernie Sanders, virðulegur mjög frá hálsi og upp, en allsnakinn fyrir neðan háls fyrir utan járnhring sem hann hefur smeygt utan um kynfæri sín. Hann dansar eins og andsetinn á pallinum.
Eftir því sem líður á kvöldið eykst mannfjöldinn, og stemningin í réttu hlutfalli. Fjölbreytileiki gestanna er ótrúlegur. Þarna er fólk á öllum aldri, af öllum stærðum og gerðum. Um staðinn svífa nokkrar dragdrottningar með körfur og bjóða gestum smokka, sleipiefni og sleikipinna. Þær gegna líka hlutverki siðgæðisvarða og gæta þess að það sem fram fer sé með samþykki allra hlutaðeigandi, hvort sem um er að ræða flengingar, munnmök eða hópsamfarir. Já, kynlíf var vissulega stundað á staðnum. En það var fjarri því aðalatriði fyrir alla gesti kvöldsins. Sumir kusu að njótast fyrir opnum tjöldum, aðrir kusu að horfa á, og allir virtust virða regluna um að snerta ekki nema að undangengnu tilboði.
Ég spjallaði við nokkra gesti. Til dæmis hann Nic, 66 ára gamlan homma, sem er að koma í sjötta sinn á Wasteland. „Ég er búinn að vera giftur manninum mínum í níu ár,“ segir hann mér þar sem við sitjum hlið við hlið á pleðurpalli, hann klæddur í leðurpungbindi, leðuraxlabeisli og með leðuról um hálsinn. „Áður var ég giftur konu, og á með henni tvö börn sem eru bæði fullorðin í dag. En svo kom ég út úr skápnum fyrir 15 árum og byrjaði að lifa í alvöru,“ heldur hann áfram. „Maðurinn minn fílar ekki þessi stóru partí, en við stundum BDSM-kynlíf heima. Ég er vanur að koma hingað með leikfélaga okkar,“ segir hann og strýkur lærið á grönnum latexklæddum manni sem situr hinum megin við hann. Hann kynnir mig fyrir Benno, 33 ára leikfélaga þeirra hjóna. Benno er tvíkynhneigður, listamaður og segist hafa verið virkur í fetish-senunni í nokkur ár. „Ég elska þetta!“ segir hann og faðmar mig og Nic af áfergju.
Partíið stóð fram á morgun. Blaðakona og fylgilið voru komin heim í næturpítsu um klukkan fimm, um það leyti sem fuglar í trjám byrjuðu að syngja. Þessi auðmjúka opna er fjarri því nógu stór til að rúma frásagnir af öllu sem fyrir augu bar.
Á dv.is verður fjallað ítarlegar um það sem fyrir augu bar á Wasteland. Dómínuna sænsku sem leyfði fimm ungum hommum að fullnægja sér með handafli, fetish-dverginn Phil, sjötuga parið sem klæddist samstæðum latexgöllum og pastellitum korsettum yfir, „hundana“ með leðurgrímurnar sem voru leiddir um skríðandi í ólum, mannlegu gúmmídúkkuna og auðvitað þríkantinn þar sem leðurklæddur vöðvakarl, tvær latexklæddar konur, flengingabekkur og saflát koma við sögu. Ekki missa af því!
Fyrir þá sem hafa hug á að skella sér á næsta Wasteland er rétt að benda á heimasíðu viðburðarins.
Myndir með greininni eru eftir belgíska ljósmyndarann Mieke Jacobs.