Bowie In Memoriam – einvalalið tónlistarmanna heiðra goðsögn hans
Það veit sennilega hvert einasta mannsbarn á Íslandi hver David Bowie var; margverðlaunaður söngvari, lagahöfundur, leikari og útgefandi sem þegar í lifanda lífi var orðin goðsögn í tónlistarheiminum sem hann starfaði í í yfir 5 áratugi og áhrifavaldur fjölmargra tónlistarmanna og hljómsveita sem á eftir honum hafa komið.
Bowie hlaut 11 platínuplötur í Bretlandi og 5 í Bandaríkjunum og árið 1996 fékk hann inngöngu í Rock and Roll Hall of Fame.
Hinn enski David Robert Jones sem heimsbyggðin þekkti betur sem David Bowie lést þann 10. janúar síðastliðinn, aðeins tveimur dögum eftir 69 ára afmælisdag sinn. Bowie sinnti tónlistinni fram á síðasta dag og platan Blackstar kom út 8. janúar sl. rétt fyrir andlát hans.
Promo í samvinnu við Guðmund Vilhjálmsson og Karl Örvarsson vildu því heiðra hinn látna snilling og framlag hans til tónlistarsögunnar með minningartónleikum sem haldnir verða í Hörpu föstudaginn 29. apríl nk. kl. 19.30 með einvala liði söngvara og hjóðfæraleikara. En það vill svo skemmtilega til að Karl og Bowie eiga einmitt sama afmælisdag (8. jan) og hefur sá fyrr nefndi verið einn helsti kyndilberinn hér á landi undanfarin ár og hélt m.a. heiðurstónleika David Bowie í Tjarnarbíói, Græna hattinum og víðar ekki alls fyrir löngu.
Bowie var fæddur og uppalinn í London og sýndi snemma áhuga og hæfileika á tónlistarsviðinu. Árið 1969 varð lagið „Spade Oddity“ fyrsta lag hans til að ná verulegum vinsældum í Bretlandi, í kjölfar vinsælda þess endurskóp Bowie sig og kom aftur fram á sjónarsviðið árið 1972 sem Ziggy Stardust með lagið „Starman“ en segja má að Bowie hafi orðið heimsfrægur með því lagi, sem er sennilega með þekktari lögum Bowie og er mikið spilað enn þann dag í dag, ásamt öðrum lögum hans. Á ferli sínum starfaði Bowie með fjölda þekktra tónlistarmanna og gaf hann meðal annars út lög með Queen, Mick Jagger, Tinu Turner og Iggy Pop bara til að nefna nokkra. Bowie flutti lag á Live Aid tónleikunum árið 1985 og gaf af sama tilefni út lagið Dancing In The Streets með Mick Jagger, söngvara Rolling Stones. Lagið fór beint í fyrsta sæti vinsældarlista og vann MTV verðlaun.
Bowie náði hátindi vinsælda sinna og markaðslega séð árið 1983 þegar platan „Let´s Dance“ kom út. Platan varð platínuplata bæði í Bretlandi og Bandaríkjunum, titillagið náði í efsta sæti beggja vegna Atlantshaft og lögin „China Girl“ og „Modern Love“ komust bæði í annað sæti vinsældalistans í Bretlandi.
Ég verð seint skrifuð sem gallharður Bowie aðdáandi, en tónlist hans hefur haft sín áhrif á mig eins og örugglega flesta aðra, hvort sem þeir starfa við tónlist eða ekki, eða hreinlega „fíla“ tónlist Bowie. Ég varr í gaggó á 80´s tímabilinu og myndböndin þar sem Bowie tekur lögin Under Pressure með Queen og Dancing In The Streets með Mick Jagger eru mér enn í fersku minni úr Skonrok(k) þáttunum og enn þann dag í dag fyllist ég gríðarlegri nostalgíu að hlusta á þessa frábæru tónlist, sem samin var þegar tónlist þýddi eitthvað merkilegt, en var ekki bara „Uhhh beibí“. Ekki má gleyma því að Bowie leik einnig í nokkrum kvikmyndum og er kvikmyndin The Labyrinth frá 1986 þar sem að hann leikur hinn illgjarna álfakonung undir leikstjórn Jim Henson skapara Prúðuleikarana ein af mínum allra uppáhaldsmyndum, mynd sem ég horfi á reglulega enn þann dag í dag. Minningartónleikar um þennan merka tónlistarmann eru því eitthvað sem ég mun alls ekki láta framhjá mér fara.
Það er eins og áður sagði einvalalið söngvara og tónlistarmanna sem mun taka þátt í tónleikunum og á þeim verður leitast við að heiðra minningu Bowie á heiðvirðan og tignarlegan hátt þannig að tónleikagestir fái að njóta tónlistar hans sem best. Tónlist Bowie er fjölbreytt og hreinn fjársjóður fyrir unnendur tónlistar. Ferill Bowie hefur spannað ólíka stíla og tímabil og munu bæði skapa ógleymanlega stemmningu í Hörpu næstkomandi föstudag.
Söngvarar tónleikanna eru þau Högni Egilsson, Glowie, Stefán Jakobsson, Pétur Ben, Andrea Gylfadóttir, Sigurður Guðmundsson, Þór Breiðfjörð, Unnur Birna Bassadóttir, Valdimar Guðmundsson, Karl Örvarsson og Björgvin Halldórsson.
Hljómsveitarstjóri kvöldsins er Karl Olgeirsson og hljómsveitina skipa Tómas Tómasson, Jón Elvar Hafsteinsson, Ingi Björn Ingason, Ingólfur Sigurðsson, Jóhann Ingvason, Emil Guðmundsson, Sigurður Flosason, Karl Örvarsson, Unnur Birna Bassadóttir og Matthías Stefánsson.
Bowie In Memorian tónleikarnir verða í Hörpu föstudagskvöldið 29. príl nk. kl. 19.30 og eru kvöldstund sem þú mátt ekki missa af og enn er hægt að kaupa miða hér
Promo er á facebook