Ferðafélagið Útivist
Þegar vorið nálgast leggjast margir yfir landakort og ákveða gönguferðir fyrir sumarið. Áhugi á hollri útiveru í náttúrunni hefur aukist mikið undanfarin ár og sífellt fleiri reima á sig gönguskó og leggja af stað í óbyggðir og á heiðar. Ferðafélagið Útivist er tilvalinn vettvangur til að stunda þetta heilsusamlega áhugamál. Til að taka þátt í starfi Útivistar þarf að gerast félagsmaður, en skráning í félagið er einfalt ferli og kostar ekki mikið, sérstaklega þegar haft er í huga það sem félagsmönnum stendur til boða.
Útivist er með starfsemi allt árið þó svo mest sé um að vera í starfinu yfir sumarið. Flesta sunnudaga ársins er boðið upp á dagsferðir. Rauður þráður í dagsferðum ársins í ár er raðganga þar sem gengið er eftir strandlengju Reykjaness í nokkrum áföngum. Næsta sunnudag verður gengið frá Grindavík að Gunnuhver og þó svo fyrstu áfangar raðgöngunnar séu að baki er vel hægt að bætast í hópinn og taka þá áfanga göngunnar sem heilla.
Nýlega var hleypt af stokkunum nýrri göngudagskrá hjá Útivist, en hún kallast Útivistargírinn. Þetta eru ókeypis göngur á miðvikudögum sem eru tilvaldar til að „koma sér í gírinn“ fyrir sumarið. Þessi dagskrá tekur við af miðvikudagsgöngum Útivistarræktarinnar sem hefur verið á dagskrá Útivistar í mörg ár, en helsti munurinn er sá að hér er haldið mun meira utan um dagskrána og ferðirnar. Kraftmikill hópur fararstjóra stýrir þessum göngum og sér til þess að allt gangi vel fyrir sig ásamt því að miðla af þekkingu sinni og reynslu.
Þeir sem taka virkan þátt í göngum Útivistargírsins ættu að vera að þeim loknum komnir í gott form til að koma í Jónsmessugöngu Útivistar. Jónsmessuhelgin er jafnan stærsti viðburður ársins hjá Útivist. Í ár bjóðum við upp á tvenns konar göngu. Annars vegar er boðið upp á hefðbundna næturgöngu yfir Fimmvörðuháls. Lagt verður af stað frá Reykjavík á föstudagskvöldi og gengið yfir Hálsinn um nóttina. Á leiðinni verður stoppað á völdum stöðum og boðið upp á hressingu. Í dögun á laugardegi koma göngumenn niður í Bása þar sem tími gefst til að hvílast um stund. Hins vegar bjóðum við upp á skemmtilega göngu um einstakt göngusvæði á Goðalandi inn af Básum. Þetta er tilvalinn kostur fyrir þá sem vilja taka þátt í margrómaðri Jónsmessugleði Útivistar og kjósa þægilega göngu án mikillar hækkunar. Laugardagskvöldið verður slegið upp grillveislu og kvöldvöku þar sem Útivistargleðin ríkir.
Eftir Jónsmessu er á dagskrá fjöldi styttri og lengri gönguferða. Í hóp skrautfjaðra í dagskrá Útivistar má nefna göngu frá Sveinstindi við Langasjó og niður með Skaftá, leið sem nefnist Sveinstindur – Skælingar. Í beinu framhaldi af þeirri göngu er Strútsstígur sem er skemmtileg leið sem býður meðal annars upp á bað í Strútslaug sem er náttúruleg laug í Hólmsárbotnum. Þá hefur félagið verið að móta nýja leið að Fjallabaki sem nefnist Dalastígur og býður upp á flest það sem gerir Fjallabakssvæðið svo heillandi.
Sjá nánar á heimasíðu Útivistar, www.utivist.is
Ferðafélagið Útivist
Laugavegi 178
105 Reykjavík
Sími: 562-1000
utivist@utivist.is
Opið alla virka daga frá kl. 12–17