Nokkur góð ráð varðandi flutninga
Sendibílastöðin Flutningur býður upp á alhliða flutninga, greiðabíla fyrir búslóða- og píanóflutninga og vörudreifingu á Stór-Reykjavíkursvæðinu. Á vegum stöðvarinnar eru allar stærðir sendibíla og markmið hennar er að veita trausta, örugga og umfram allt góða þjónustu við bæði fyrirtæki og einstaklinga.
Kristján Kristjánsson, framkvæmdastjóri Flutnings segir bílaflota fyrirtækisins vera fjölbreyttan. „Auk þess hafa bílstjórarnir okkar mikla þekkingu og reynslu af flutningum, vörudreifingu og raunar hvers kyns aðstæðum sem komið geta upp varðandi flutninga og akstri þeim tengdum. Sjálfur er ég búinn að vera í þessum bransa í þrjátíu ár og ætti að vera búinn að öðlast einhverja tækni.
Við höfum yfir að ráða öllum nauðsynlegum léttitækjum sem til þarf í flutninga á vörum, bílum, búslóðum og vélum. Við erum stoltir af því að geta ráðið við hvers konar flutninga af fagmennsku,“ segir hann.
„Flutningur.is tekur að sér alls kyns ólík og fjölbreytt verkefni. Við höfum t.d. verið fengnir á tökustað við gerð auglýsingamynda á bílum og er það gott dæmi um fjölhæfni okkar,“ segir Kristján glettnislega.
„Bílar á okkar vegum eru nýttir sem flutningstæki og jafnvel verkstæði til þess að annast viðgerðir, dekkjaskipti og þrif á sýningabílunum. Fyrirtækið er með öll nauðsynleg tæki og tól sem þarf til slíkra verka enda hefur margra ára reynsla í bransanum kennt okkur að mæta með það sem þarf.
Við tökum að okkur vörudreifingu og alla almenna búslóðaflutninga. Flutningur.is er með á sínum snærum átta sendibíla, bæði litla og stóra, einnig kranabíla og hvers kyns léttitæki.“
Kristján segir frá því að Flutningur.is sé um þessar mundir að taka í notkun gámaflutningabíl fyrir tuttugu feta gáma og það standi til að bjóða upp á þá nýbreytni að fá gám á staðinn. „Þetta kemur sér vel fyrir þá sem þurfa að afhenda sína íbúð strax en fá ekki nýju íbúðina afhenta fyrr en seinna og ekki síður fyrir þá sem vilja raða í gáminn í rólegheitum og ekki flytja í einum hvelli.
Einnig er hægt að leigja búslóðalyftu hjá fyrirtækinu og má sjá kynningarmyndband á heimasíðu Flutnings.is þar sem hægt er að sjá hvernig lyftan virkar.“
Sankaðu að þér sterkum kössum í nokkrum stærðum. Einnig er gott að hafa eftirfarandi við hendina þegar pakkað er: kúluplast, dagblöð, skæri, sterkt límband og góðan merkipenna.
Pakkaðu þungum hlutum, eins og bókum, í minni kassa svo þeir verði ekki of þungir. Í stærri kössum skulu þyngri hlutir vera neðst og þeir léttari efst. Pakkið hverjum hlut í dagblöð eða kúluplast ef þeir eru viðkvæmir. Ef of rúmt er um hluti í kassanum, fylltu þá upp í hann með dagblöðum eða öðru slíku.
Pakkaðu öllu því sem á að fara í sama herbergi í sama kassa og merktu hann herberginu. Taktu fyrir eitt herbergi í einu, pakkaðu fyrst litlum munum til að koma þeim frá. Merktu utan á kassann hvað er í honum.
Pakkaðu og merktu sérstaklega þá kassa sem opna á fyrst af öllum þegar komið er á áfangastað. Í kassanum eiga að vera ómissandi hlutir sem notaðir voru fram á síðasta dag, líkt og uppþvottalögur, klósettpappír, plastdiskar og hnífapör og ýmislegt það sem fjölskyldan þarf að nota áður en hægt er að taka upp úr öllum kössunum.
Þegar stærri hlutir eru teknir í sundur, líkt og borð, hillur og skápar, er gott að geyma verkfæri í einum vel merktum poka eða kassa til að auðvelda samsetningu á nýja staðnum. Skrúfum er gott að tylla og jafnvel líma aftur í þau göt sem þær eiga að vera í.
Settu allan rafeindabúnað eins og fjarstýringar, millistykki og straumbreyta á einn stað.
Staflaðu kössunum þegar búið er að loka þeim. Gott er að nýta eitt herbergi undir kassana, þannig er hægt að klára að þrífa hinn hluta hússins.
Sendibílastöðin Flutningur.is I Sími: 575 – 3000 I www.flutningur.is