fbpx
Mánudagur 23.desember 2024
FókusKynning

Sex mánaða barn með bjór í pela

Sigurður Erik og Hekla Líf hjálpa munaðarlausum börnum í Suður-Afríku – Tekur á þegar ný börn bætast við

Ritstjórn DV
Sunnudaginn 6. mars 2016 16:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Hér eru allir þakklátir fyrir góðverk jafnvel þótt þau séu mjög lítil. Ég hef ekki fyrr en nú gert mér grein fyrir því hversu gott ég hef það og hvað ég er í góðri stöðu til að gefa til baka,“ segir hinn 19 ára gamli Sigurður Erik Hafliðason sem dvelur um þessar mundir rétt fyrir utan Höfðaborg í Suður-Afríku og sinnir sjálfboðaliðastarfi á munaðarleysingjaheimili á vegum nýstofnaðra samtaka sem nefnast Norður Suður.

Í janúar ræddi DV við Lilju Marteinsdóttur, stofnanda samtakanna, en þá var allt að verða tilbúið fyrir komu fyrstu sjálfboðaliðanna. Samtökin standa fyrir fjögurra vikna sjálfboðaliðaprógrammi fyrir ungmenni á aldrinum 15 til 20 ára og dvelja þátttakendur á heimili Lilju og fjölskyldu hennar meðan á prógramminu stendur.

Þakklát fyrir allan lærdóminn

„Það hefur verið séð ótrúlega vel um okkur hérna og ég gæti ekki ímyndað mér betri stað til að fá að vera og gista á,“ segir Sigurður Erik sem er augljóslega ánægður með dvölina í Suður-Afríku.

Hekla Líf Júlíusardóttir, 16 ára, er einnig þátttakandi í prógramminu og tekur undir orð Sigurðar Eriks. „Ég er svo þakklát fyrir allt sem ég hef lært á þeim tíma sem ég hef verið hér í Suður-Afríku og þetta kennir manni hvernig maður á að njóta hverrar sekúndu í lífinu. Ég hef fengið að kynnast frábærum krökkum og frábæru fólki hérna. Ég vona að allir sem lesi þetta íhugi að fara í svona sjálfboðastarf hvar sem er í heiminum. Þótt ekki væri nema bara til að sjá hvað krakkarnir sem eiga ekkert, sumir ekki einu sinni mömmu og pabba, eru alltaf glaðir og hamingjusamir með allt.“

Hérna er Hekla með litla drenginn, sem fannst með bjór í pelanum, í fanginu.
Á heimilinu Hérna er Hekla með litla drenginn, sem fannst með bjór í pelanum, í fanginu.

Mynd: Sigurður Erik Hafliðason

Hafa fundist í ruslatunnum

Sigurður Erik og Hekla Líf starfa daglega með bæði munaðarlausum börnum og börnum sem búa við mjög bág kjör í nágrenni Höfðaborgar og taka þátt í daglegum leik og athöfnum þeirra. Börnin hafa tekið íslensku ungmennunum opnum örmum, enda hafa þau á skömmum tíma glætt líf þeirra gleði með ýmsum uppákomum, eins og dagsferð á ströndina, sem sum barnanna höfðu aldrei upplifað áður. Hekla Líf og Sigurður Erik benda bæði á að ferð á ströndina hljómi kannski ekki stórfenglegt í hugum flestra en hún var það sannarlega í hugum barnanna.

Þá ákváðu þau að lífga aðeins upp á fábrotnar vistarverurnar á einu munaðarleysingjaheimilinu með því mála kojurnar í björtum litum og það gladdi börnin líka mikið. En vistarverurnar eru áhyggjuefni út af fyrir sig því þar eru flær og veggjalýs mikið vandamál. En það er einmitt eitthvað sem sjálfboðaliðarnir vilja taka á.

Á því munaðarleysingjaheimili eru 28 börn á aldrinum sex mánaða til 18 ára en langflest þeirra hafa verið skilin eftir, meðal annars í runnum eða ruslatunnum og í vegköntum í fátækrahverfunum. Fæst þessara barna eru nokkurn tíma ættleidd og eyða því allri barnæsku sinni á heimilinu, þar sem þau búa við bág kjör. Matur er af skornum skammti og verða þau að treysta á velvild ókunnugra þegar kemur að nauðsynjum.

Sigurður Erik með einu barni af munaðarleysingjaheimilinu.
Vinir Sigurður Erik með einu barni af munaðarleysingjaheimilinu.

Mynd: Sigurður Erik Hafliðason

Mörg systkini skilin eftir

Íslensku sjálfboðaliðarnir hafa tekið ástfóstri við sex mánaða dreng, Anele, sem var skilinn eftir á götunni með ekkert nema bjór í pela. En hann er eitt af sex börnum sem móðir hans hefur skilið eftir á víðavangi á síðustu árum. Drengurinn þjáist af afleiðingum áfengiseitrunar og þarf mikla umönnun sem ekki er í boði á heimilinu. Bleyjur og þurrmjólk eru af skornum skammti og engin sértæk aðstoð er í boði fyrir drenginn og starfsfólk heimilisins.
Sigurður Erik og Hekla Líf ákváðu að setja af stað söfnun fyrir börnin og hafa þau nú þegar safnað miklu magni af fötum og öðrum nauðsynjum, eins og bleyjum og mjólk. Þá hafa þau séð til þess að litli drengurinn fái hreina pela og snuð.

Þriggja ára sá um eins árs bróður

Lilja, sem heldur utan um prógrammið, segir að ástandið á börnunum taki mikið á Heklu Líf og Sigurð Erik. Það sé sérlega erfitt fyrir þau að horfa upp á ný börn bætast í hópinn, en á síðustu vikum hafa þrjú börn komið inn á heimilið.
„Þriggja ára strákur kom í síðustu viku ásamt eins og hálfs árs bróður sínum. Þeir voru teknir af heimili sínu af félagsmálayfirvöldum eftir að mamma þeirra skildi þá ítrekað eftir marga daga eina heima með takmarkaðar matar- og drykkjarbirgðir. Þessi eldri hefur verið ábyrgur fyrir velferð litla bróður síns frá fæðingu og bera báðir drengirnir þess augljós merki. Báðir þjást þeir af miklum næringarskorti og stríða við gríðarlegan aðskilnaðarkvíða. Þegar litli grætur má sjá þann eldri stökkva til að sinna honum,“ segir Lilja. En ólíkt öðrum börnum á heimilinu koma bræðurnir ekki til með að staldra þar lengi við. Þeir verða sendir í varanlegt fóstur á næstu dögum.

„Þriðja barnið sem hefur bæst í hópinn er 12 ára stelpa. Stjúppabbi hennar var búinn að misnota hana í mörg ár og þegar hún sagði loksins frá þá trúði mamma hennar henni ekki. Henni var bjargað af félagsmálayfirvöldum. Hún er núna algjörlega umkomulaus og verður á heimilinu í að minnsta kosti þrjá mánuði. Eftir það verður henni komið fyrir á fósturheimili.“

Það kom bæði Heklu og Sigurði á óvart hvað börnin á munarleysingjaheimilinu voru glöð þrátt fyrir að eiga ekki neitt.
Gleði Það kom bæði Heklu og Sigurði á óvart hvað börnin á munarleysingjaheimilinu voru glöð þrátt fyrir að eiga ekki neitt.

Mynd: Sigurður Erik Hafliðason

Vekja athygli á stöðunni

Sjálfboðaliðarnir hafa líka lagt vinnu í að vekja athygli samfélagsins í kringum fátækrahverfið á nauðsyn þess að rétta fram hjálparhönd. Það þurfi ekki að vera mikið. Þau vilja skilja eitthvað eftir sig þegar þau snúa aftur heim til Íslands og markmiðið er að virkja samfélagið, bæði úti og hér heima.

„Við viljum upplýsa fólkið heima á Íslandi um þá gríðarlegu neyð sem ríkir hér meðal þeirra sem minna mega sín. Við höfum það svo gott á Íslandi og það eru svo margir úti í hinum stóra heimi sem hafa engar lausnir á reiðum höndum og treysta algerlega á velvild annarra. Margt smátt gerir eitt stórt,” segir Sigurður Erik og Hekla Líf tekur undir orð hans.
Samtökin Norður Suður stefna líka á að hefja söfnun til þess að létta undir með rekstri súpueldhúss sem rekið er af sjálfboðaliðum, tveimur fátækum konum, í litlum bárujárnskofa í útjaðri fátækrahverfisins Nomzamo. En þær fæða hátt í 150 börn daglega og greiða fyrir matinn úr eigin vasa.

Hægt er að fylgjast með Norður Suður á heimasíðu samtakanna og á Facebook.

Mörg barnanna hafa fundist í vegköntum og ruslatunnum. Fæst þeirra eiga nokkurn möguleika á að verða ættleidd.
Munaðarlaus Mörg barnanna hafa fundist í vegköntum og ruslatunnum. Fæst þeirra eiga nokkurn möguleika á að verða ættleidd.

Mynd: Sigurður Erik Hafliðason

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Kynning
14.05.2024

Vodafone gerir tímamótasamning um internettengingar í bíla

Vodafone gerir tímamótasamning um internettengingar í bíla
Kynning
09.05.2024

UAK 10 ára – Ráðstefna á laugardaginn

UAK 10 ára – Ráðstefna á laugardaginn
Kynning
27.03.2024

Dreymir þig um lúxussiglingu um fallegustu eyjur Króatíu? – Gerðu drauminn að veruleika 

Dreymir þig um lúxussiglingu um fallegustu eyjur Króatíu? – Gerðu drauminn að veruleika 
Kynning
27.03.2024

„Algjört saunaæði runnið yfir landsmenn“

„Algjört saunaæði runnið yfir landsmenn“
Kynning
28.12.2023

Gefa bretti af flugeldum að verðmæti 243.500kr

Gefa bretti af flugeldum að verðmæti 243.500kr
KynningMatur
22.12.2023

Skúbblerone er nýr hátíðarís hjá Skúbb

Skúbblerone er nýr hátíðarís hjá Skúbb
Kynning
06.11.2023

Æfinga eða keppnisferð íþróttafélaga í útlöndum

Æfinga eða keppnisferð íþróttafélaga í útlöndum
Kynning
29.10.2023

Flýgur með Íslendinga til paradísarinnar Punta Cana í myrkasta skammdeginu – „Ég skildi við kallinn en ekki landið“

Flýgur með Íslendinga til paradísarinnar Punta Cana í myrkasta skammdeginu – „Ég skildi við kallinn en ekki landið“