fbpx
Þriðjudagur 16.júlí 2024
FókusKynning

Dæmi um að börn drekki sem nemur 10-20 kaffibollum á dag: Bjarney hvetur foreldra til að taka slaginn við börn sín – Orkudrykkir geta verið varasamir

Börn eru allra viðkvæmasti hópurinn þegar kemur að koffínneyslu

Einar Þór Sigurðsson
Miðvikudaginn 30. mars 2016 11:05

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Börnin viðkvæm

Viðkvæmni, taugaveiklun og kvíði meðal aukaverkana of mikillar koffínneyslu
Börnin viðkvæm

Börn jafnt sem fullorðnir bregðast afar misjafnlega við áhrifum koffíns og það er einstaklingsbundið hversu viðkvæmt fólk er fyrir áhrifum efnisins. Þetta kemur fram í umfjöllun á vefnum doktor.is um áhrif koffíns á líkamann. Í greininni kemur fram að á meðan tiltölulega lítill skammtur af koffíni geti valdið magaverkjum og svefntruflunum hjá einum þoli aðrir koffín í stórum stíl án þess að kenna sér nokkurra óþæginda.

„Þó hafa rannsóknir sýnt að neysla sem er umfram 400 mg af koffíni á dag, sem samsvarar um það bil þremur kaffibollum, getur aukið hættuna á skaðsemi umtalsvert. Almennt séð eru börn, ófrískar konur og eldra fólk viðkvæmari fyrir koffíni en aðrir. Börn eru þó sennilega allra viðkvæmasti hópurinn þar sem taugakerfi þeirra er enn óþroskað. Sem dæmi má nefna að óæskileg áhrif geta komið fram hjá börnum, jafnvel eftir „tiltölulega“ litla neyslu koffínríkra gosdrykkja. Það er því ekki aðeins sykur heldur líka koffín í gosdrykkjum og sælgæti sem getur verið óæskilegt. Sem dæmi má nefna að í þremur stórum dósum af kóladrykk og þremur súkkulaðistykkjum er álíka mikið af koffíni og í tveimur kaffibollum eða um það bil 200 mg af koffíni. Skammtur sem þessi getur orsakað tímabundnar aukaverkanir hjá barni, sem vegur 30 kíló, sem lýsa sér til dæmis í viðkvæmni, taugaveiklun og kvíða,“ segir í greininni.

„Þetta getur valdið allskonar einkennum eins og skjálfta, svima, hausverk, hjartsláttartruflunum og svefntruflunum,“ sagði Bjarney Bjarnadóttir íþróttafræðingur og grunnskólakennari í viðtali við Bítið á Bylgjunni í morgun. Þar ræddi Bjarney meðal annars um koffínmagn í íþróttadrykkjum og auðvelt aðgengi barna að þessum drykkjum.

Foreldrar ráðþrota

Bjarney, sem starfar sem grunnskólakennari og einkaþjálfari, skrifaði færslu á Facebook-síðu sína í fyrradag sem vakti mikla athygli. Tilefni skrifanna sagði Bjarney vera að foreldrar barna hefðu komið að máli við hana vegna orkudrykkja, þá sér í lagi Amino Energy, sem börn þeirra hefðu viljað kaupa. „Fólk stóð svolítið ráðþrota gagnvart börnunum sínum og gat kannski ekki útskýrt af hverju þau mættu ekki kaupa þetta,“ sagði Bjarney í Bítinu í morgun.

Lykilatriði að kynna sér innihaldið

„Það sem hefur kannski mest verið rætt um við mig er Amino energy, sennilega þar sem það er markaðssett sem heilsuvara og er selt í flestum matvöruverslunum (ég ætla ekki einu sinni að ræða Monster, Red Bull, Mountain Dew og þess háttar sull, ég er í alvörunni gráti næst þegar ég sé ungmenni með þessa drykki),“ sagði Bjarney í færslunni.

Til marks um koffínmagnið í Amino Energy bendir Bjarney á að í einum skammti af Amino Energy séu 160 milligrömm af koffíni. Til samanburðar eru 40 til 80 milligrömm í einum kaffibolla. „Þannig að ef ykkur finnst ekki í lagi að börnin ykkar/unglingarnir drekki 2-4 bolla af kaffi fyrir æfingar (eða bara yfirhöfuð), þá ætti ykkur ekki að finnast í lagi að þau drekki Amino energy, eða aðra orkudrykki sem innihalda koffín, heldur,“ sagði Bjarney í færslunni. Hún tók sérstaklega fram að Powerade og Gatorade innihalda ekki koffín og bætti við að aðalatriðið væri að kynna sér innihaldsefnin.

Örvandi fyrir miðtaugakerfið

Bjarney sagði í viðtalinu á Bítinu að hún hefði sérstaklega tekið Amino Energy fyrir þar sem drykkurinn er markaðssettur sem heilsudrykkur. Hún segir að aðrir drykkir séu verri hvað koffínmagn varðar, en staðreyndin sé sú að Amino Energy sé fáanlegur í nær öllum matvöruverslunum og markaðssettur sem heilsuvara.

Þetta hefur örvandi áhrif á miðtaugakerfið og bara það eitt og sér er frekar ógnvekjandi þegar við erum að tala um börn og unglinga

Þegar hún var spurð að því hvers vegna drykkir með háu koffíninnihaldi væru slæmir fyrir börn og unglinga sagði Bjarney þeir gætu valdið allskonar einkennum. Þá innihaldi sumar drykkir önnur örvandi efni á borð við Guarana, Ginseng og Green Tea Extract. „Þetta hefur örvandi áhrif á miðtaugakerfið og bara það eitt og sér er frekar ógnvekjandi þegar við erum að tala um börn og unglinga. Þetta getur valdið allskonar einkennum; eins og skjálfta, svima, hausverk, hjartsláttartruflunum, svefntruflunum,“ sagði Bjarney sem sagðist þekkja dæmi þess að ungmenni noti 8-10 skeiðar af efninu þegar ráðlagður skammtur er tvær skeiðar. 8-10 skeiðar innihalda 600 til 800 milligrömm af koffíni. Það jafngildir 10 til 20 kaffibollum á dag. Börnum er ekki ráðlagt að neyta meira en sem nemur 2,5 milligrömmum af koffíni á degi hverjum sem þýðir að fyrir 50 kílóa ungling sé viðmiðið 125 milligrömm á dag. Bjarney segir að fyrir börn og unglinga sem eru að vaxa og þroskast geti það haft skaðleg áhrif að neyta svo mikils magns koffíns.

Foreldrar taki slaginn

Bjarney segist eiga auðvelt með að skilja að fólk telji sér trú um að drykkir á borð við Amino Energy séu ekki slæmir. Þegar hún var spurð í Bítinu hvað væri til bragðs að taka sagði Bjarney að mikilvægast væri að foreldrar væru upplýstir um innihald þeirra drykkja sem börn þeirra neyta. Þá sagði hún að foreldrar ættu að vera óhræddir við að taka slaginn við börn sín og hafa vit fyrir þeim, þar til þau hafa nægan þroska til að taka upplýsta ákvörðun sjálf.

Hér má hlusta á viðtalið í Bítinu í morgun

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Kynning
27.03.2024

Dreymir þig um lúxussiglingu um fallegustu eyjur Króatíu? – Gerðu drauminn að veruleika 

Dreymir þig um lúxussiglingu um fallegustu eyjur Króatíu? – Gerðu drauminn að veruleika 
Kynning
27.03.2024

„Algjört saunaæði runnið yfir landsmenn“

„Algjört saunaæði runnið yfir landsmenn“
Kynning
26.01.2024

Vetrarsýning Heklu – Frumsýnum Volkswagen Touareg og rafmagnaðan ID.7

Vetrarsýning Heklu – Frumsýnum Volkswagen Touareg og rafmagnaðan ID.7
Kynning
23.01.2024

Tífalt meira magn af „bótoxi jurtaríkisins“ í nýju serumi frá Nivea

Tífalt meira magn af „bótoxi jurtaríkisins“ í nýju serumi frá Nivea
Kynning
06.11.2023

Æfinga eða keppnisferð íþróttafélaga í útlöndum

Æfinga eða keppnisferð íþróttafélaga í útlöndum
Kynning
29.10.2023

Flýgur með Íslendinga til paradísarinnar Punta Cana í myrkasta skammdeginu – „Ég skildi við kallinn en ekki landið“

Flýgur með Íslendinga til paradísarinnar Punta Cana í myrkasta skammdeginu – „Ég skildi við kallinn en ekki landið“