Ný námskeið hefjast strax eftir páska hjá Hringsjá og hvetur Helga Eysteinsdóttir forstöðumaður Hringsjár fólk til að skrá sig sem fyrst. Hringsjá sem er náms- og starfsendurhæfing er með fjölda námskeiða sem eru sniðin fyrir einstaklinga sem hafa verið frá vinnumarkaði eða námi vegna slysa, veikinda, félagslegra erfiðleika eða annarra áfalla. Í boði er mikið úrval af öðruvísi og spennandi námskeiðum sem hafa hjálpað mörgum að komast aftur af stað eða í fyrsta sinn til meiri virkni, betri lífsgæða, í frekara nám og út á vinnumarkaðinn.
Námskeiðin sem eru í boði eru Fjármál, Tök á tilverunni, Úff úr frestun í framkvæmd, Sjálfstyrking, Tölvur 1 og Heilbrigt líferni. Öll fyrrnefnd námskeið hefjast í apríl. „Námið hentar þeim sem hafa litla grunnmenntun eða sértæka námserfiðleika. Stefnt er að því að þeir sem útskrifast frá Hringsjá séu færir um að takast á við nám í almennum framhaldsskólum og finna störf við hæfi á almennum vinnumarkaði,“ segir Helga.
„Sérstaða okkar felst í að bjóða upp á einstaklingsmiðað nám þar sem nemendum býðst samhliða kennslu að nýta sér sérfræðilega ráðgjöf og í ákveðnum tilvikum einstaklingsmiðaða einkakennslu. Í Hringsjá er fyrir hendi mikil reynsla og þekking á fullorðinsfræðslu. Hér starfar sérmenntað starfsfólk með víðtæka reynslu úr skólastarfi, atvinnulífi, listum og félagsstarfi sem hefur óbilandi trú á möguleikum hvers og eins til þess að ná árangri,“ segir Helga.
Opnunartími Hringsjár er mánudaga til fimmtudags frá kl. 08:30 til 12:00 og kl. 12:30 til 15:30, en á föstudögum frá kl. 08:30 til 12:00. Frekari upplýsingar má nálgast á heimasíðu Hringsjá.