Eitt best geymda leyndarmál Japans – Andy Warhol-safnið í Slóvakíu
Jörðin okkar er ógnarstór og uppfull af ótrúlegum stöðum og frábæru landslagi. Breska blaðið Telegraph tók á dögunum saman lista yfir nokkra magnaða staði sem fáir hafa ef til vill heyrt um en alla dreymir eflaust um að heimsækja.
Gunung Mulu-þjóðgarðurinn er sannkölluð paradís, en hann er á eyjunni Borneó. Helsta aðdráttaraflið í garðinum er stórbrotið hellakerfi sem er eitt það stærsta á jörðinni. Raunar eru hellarnir svo stórir að í minnst einum þeirra væri hægt að koma Boeing 747 þotu fyrir.
Ninh Binh-hérað er eitt helsta aðdráttaraflið fyrir þá ferðamenn sem heimsækja hið margbrotna land Víetnam í Suðaustur-Asíu. Héraðið er um kílómetra suður af höfuðborginni Hanoi en náttúrufegurðin þar á sér fáar hliðstæður. Einna fallegast er Tam Coc-gljúfrið þar sem stórir og miklir klettaveggir kallast á við ána Ngo Dong sem rennur um gljúfrið.
Eitt best geymda leyndarmál Japans er eyjan Naoshima sem liggur skammt suður af Honshu, en eins og kunnugir vita stendur Japan að mestu leyti á tveimur eyjum; Hokkaido og Honshu. Eyjan er ekki mjög stór, eða aðeins 14 ferkílómetrar og eru íbúar hennar liðlega þrjú þúsund. Naoshima er einna best þekkt fyrir fallegan arkitektúr og listaverk. Þá er stórt og mikið safn á eyjunni. The Chuchu Art Museum, en safnið á nokkurn fjölda verka eftir Claude Monet.
Suður-Ameríka á að sjálfsögðu sinn fulltrúa á þessum lista. Gvæjana er land á norðurströnd Suður-Ameríku sem á meðal annars landamæri að Brasilíu og Venesúela. Landið er ægifagurt og þá einna helst Rupununi-héraðið sem er strjálbýlt votlendissvæði. Þá er einnig minnst á Kaieteur-fossana sem þykja í hópi þeirra fallegustu í heimi.
Dóminíska lýðveldið er falin perla, þá sérstaklega austurströnd þessarar næststærstu eyju Karíbahafsins. Þar er að finna Los Haitises-þjóðgarðinn sem er afskekktur og úr alfaraleið fyrir flesta þá sem heimsækja landið. Besta leiðin til að komast þangað er með báti og það í fylgd leiðsögumanna. Þeir sem láta verða af því að leggja ferðalagið á sig sjá ekki eftir því enda á náttúrufegurðin þar sér fáar hliðstæður. Þar sem erfitt er að komast á staðinn er hann strjálbýll og nánast algjörlega ósnortinn.
Ruaha-þjóðgarðurinn er stærsti þjóðgarður Tansaníu. Slétturnar þar eru fallegar og iða af lífi framandi dýra sem lifa þar frjáls. Þjóðgarðurinn er ekki jafn vinsæll og aðrir þjóðgarðar í Tansaníu, til að mynda Serengeti-þjóðgarðurinn. Það þýðir samt ekki að hann sé tilkomuminni, síður en svo. Í Ruaha-þjóðgarðinum má meðal annars sjá villta fíla og yfir 500 tegundir af fuglum.
Nafn Andy Warhol setja ef til vill flestir í samhengi við New York eða fæðingarstað hans í Pittsburgh þar sem finna má fallegt safn í hans nafni. Í Slóvakíu, nánar tiltekið í bænum Meszilaborce í norðausturhluta landsins, er að finna stórt og mikið safn þar sem finna má mörg af fallegustu verkum Warhol. Tengslin við Slóvakíu eru kannski ekki öllum ljós, en þess má geta að móðir hans, Julia Warhola, fæddist skammt frá Meszilaborce. Safnið var opnað árið 1991.