„Kjötið frá okkur er án allra aukefna, látið meyrna í lágmark tíu daga“
Nautakjot.is selur nautakjöt beint frá býli og er með sína eigin vottuðu kjötvinnslu heima á bænum sem er staðsettur að Garði í Eyjafjarðarsveit en þaðan kemur allt kjötið. Einar Örn Aðalsteinsson, eigandi fyrirtækisins, segir að boðið sé upp á að senda kjöt hvert á land sem er, jafnt ferskt sem frosið.
„Kjötið frá okkur er allt án nokkurs konar aukefna. Ég læt kjötið meyrna að lágmarki í tíu daga, helst tvær vikur, það fer ekki í sölu öðruvísi. Þetta þýðir að ekkert mál er að skella kjötinu beint á grillið. Hamborgararnir okkar njóta mikilla vinsælda enda er um að ræða ekta 120 gramma borgara. Við leitumst ávallt við að afgreiða pantanir um leið og þær berast, en vegna mikillar eftirspurnar, og að einnig þess að ala þarf gripina, þá kemur fyrir að biðlisti eftir kjötinu kann að myndast,“ segir Einar.
„Við erum með fastakúnna um allt land, sendum mikið á Siglufjörð, Neskaupstað og auðvitað líka til Reykjavíkur enda eru viðskiptavinirnir mjög hrifnir af fersku kjöti án aukefna.
Í boði eru fjölmargir pakkar sem flestir vega í kringum tíu kíló og hægt er að skoða frekar á heimasíðunni okkar: „Við sáum ákveðna möguleika í því að bjóða upp á minni magninnkaup en hafa þekkst á nautakjöti beint frá býli í verslunum og með þeim hætti náð til ört stækkandi hóps sem vill kaupa nautakjöt án íblöndunarefna. Svo er auðvitað sjálfsagt að viðskiptavinurinn setji saman sinn eigin pakka,“ segir Einar að lokum.
Á heimasíðunni www.nautakjot.is er hægt skoða úrvalið, panta kjöt og er sendingarkostnaður innifalinn í verði. Einnig er að finna á síðunni ýmsa fróðleiksmola, fjölmargar uppskriftir og í raun allt sem vert er að vita um nautakjöt.