Eignaðist soninn Viktor Axel þann 1. nóvember – Fékk stíflu í brjóstið eftir fæðinguna
„Ég er spæld yfir því að svona mikill tími er búinn að fara í veikindi sem annars hefði getað farið í góða stund með nýfæddum syni mínum honum Viktori Axel,“ segir Heiðrún Teitsdóttir, 26 ára kona, í viðtali við Hún.is. Athygli er vakin á því að myndin neðst í fréttinni gæti vakið óhug hjá fólki.
Heiðrún eignaðist sitt fyrsta barn þann 1. nóvember síðastliðinn. Í viðtalinu, sem vakið hefur mikla athygli, segir Heiðrún að hún hafi framleitt of mikla mjólk sem varð til þess að stíflur fóru að gera vart við sig. Innan við mánuði eftir fæðinguna hafði Heiðrún fengið stíflu í þrígang.
Heiðrúnu var sagt að hún gæti átt von á að vera með stífluna í viku en hún ætti að reyna að losa hana sjálf. Það gekk erfiðlega og fjórum dögum síðar fékk hún að fara í pumpu á heilsugæslustöðinni í sínu hverfi. Á þessum tímapunkti var hægra brjóstið orðið bólgið og geirvartan flöt.
Þrátt fyrir að margt hafi bent til þess að ekki væri allt með felldu var Heiðrún send heim, en fljótlega á eftir fékk hún hita, skjálfta og beinverki. Þann 6. desember hafði Heiðrún samband við lækni sem sagði henni að halda áfram að reyna að losa stífluna. Ástandið batnaði ekkert og tveimur dögum síðar hringdi Heiðrún í heimaþjónustuna. Var henni sagt að hún gæti farið á heilsugæsluna, þar gæti hún fengið verkja- og sýklalyf ef „hún bæri sig nógu illa“.
Læknirinn ávísaði verkja- og sýklalyfjum og tjáði Heiðrúnu að ástandið myndi lagast. Það var svo sunnudaginn 13. desember að Heiðrún hringdi grátandi í foreldra sína vegna sársauka.
„Þau komu til mín og keyrðu mig á læknavaktina í Kópavogi. Læknirinn vildi auðvitað fá að sjá brjóstin en þegar ég lyfti toppnum sem ég var í sprakk hægra brjóstið bókstaflega,“ segir Heiðrún í viðtalinu. „Mig svimaði og froðufelldi bara af eintómum sársauka.“
Raunum Heiðrúnar var fjarri því lokið, en viðtalið við hana má lesa í heild á vef Hún.is. Í viðtalinu segir hún vilja koma sögu sinni á framfæri til þeirra kvenna sem eru í sömu sporum og þjást vegna sömu einkenna.