Sérstaðan er fólgin í hollustunni
Starfsemin hófst fyrir fjórum árum þegar Halla fékk þá hugmynd að útbúa matarpoka fyrir einstaklinga en það reyndist verða grunnurinn að fyrirtæki hennar í dag. Í honum er matur sem dugar frá morgni fram að kvöldmat og inniheldur djús, „búst“ (eða graut og jógúrt), millimál, hádegismat og eitthvað sætt með kaffinu.
Halla María Svansdóttir segir að matarpokinn sé ennþá vinsæll en hádegismatur til fyrirtækja er nú meginuppistaðan í rekstrinum í dag.
„Við sendum hádegismat til fjölda fyrirtækja á Suðurnesjum og einnig á Reykjavíkursvæðið. Við sendum út tölvupóst á föstudögum með matseðli næstu viku og þá fara viðskiptavinirnir inn á pöntunarkerfið okkar og leggja inn pöntun. Starfsmennirnir sjá þannig sjálfir um sínar pantanir á þeim dögum sem fyrirtækin bjóða upp á það í stað þess að einn gangi á milli starfsmanna og safni saman matarpöntunum. Mánaðarlega sendum við síðan reikning til fyrirtækjanna ásamt yfirliti yfir pantanir starfsmanna fyrir launabókhaldið,“ segir Halla.
Á virkum dögum stendur valið Hjá Höllu um salat, kjúklingarétt, grænmetisrétt, súpu og svo pítsu eða vefju. „Súpa til fyrirtækja er einnig vinsæll kostur en þá kemur súpan í hitapotti sem heldur súpunni heitri ásamt nýbökuðu brauði og pestó. Súpan hefur verið vinsæl hjá fyrirtækjum með 10–25 starfsmenn og eru það allt frá tannlæknum til hugbúnaðarfyrirtækja.“
Sérstaða matarins Hjá Höllu felst í því að hann er hollari valkostur:
„Engin aukefni eru notuð í matinn og allt er eldað frá grunni. Mikið er notast við lífrænar vörur og alltaf við gæða hráefni. Það má segja að maturinn sé mjög „lókal“ enda kemur fiskurinn frá Grindavík og kjúklingurinn er frá kjúklingabúi foreldra minna,“ segir hún.
Í desember síðastliðnum opnaði Hjá Höllu veitingastað að Víkurbraut 62 í Grindavík:
„Með tilkomu nýja veitingastaðarins stækkaði vinnuaðstaðan til muna og getum við núna tekið að okkur bæði veislur á staðnum og veisluþjónustu sem send er í heimahús eða veislusali.“
Hjá Höllu – Víkurbraut 62, Grindavík.
Opnunartími: 08.00 -17.00 og um kvöld og helgar fyrir hópa.
Sími: 896-5316. halla@hjahollu.is