Matthew Whitby vildi komast í form – Keypti sér vinsæl fæðubótarefni
Matthew Whitby, 27 ára faðir frá Ástralíu, ákvað að gera eitthvað í sínum málum og koma sér í form þar sem hann hafði þyngst nokkuð eftir að hann komst á fullorðinsár. Whitby ætlaði að bæta á sig vöðvamassa og breyta um lífsstíl.
Eins og svo margir ákvað Whitby að nota fæðubótarefni til að hjálpa sér. Hann keypti tvær vörur sem njóta nokkurra vinsælda, annars vega prótínduft sem innihélt grænt te og hins vegar fæðubótarefni sem kallast Garcinia Cambogia og hefur notið vaxandi vinsælda á undanförnum misserum. Sitt sýnist hverjum um ágæti þess eins og nánar má lesa um hér, á íslensku.
Whitby var sannfærður um að þessi tvö fæðubótarefni gætu hjálpað sér að ná markmiðum sínum, enda hafði hann lesið sér til um ágæti efnanna. „Fólk talaði almennt vel um þessi efni og þar sem þau voru framleidd í Ástralíu var ég sannfærður um að þau væru góð,“ segir hann í samtali við News.com.au.
Eftir að hafa tekið fæðubótarefnin í viku tók Whitby eftir því að hann var þreyttari en hann átti að venjast. Þvert á það sem aukin virkni ætti að hafa í för með sér, þar á meðal aukin orka og meira úthald, fann Whitby fyrir þveröfugum áhrifum. Þegar einkennin löguðust ekki ákvað hann að leita til læknis og þá fékk hann fréttir sem komu honum gjörsamlega í opna skjöldu. Að sögn lækna þjáðist Whitby af lifrarbilun og þurfti hann að gangast strax undir lifrarígræðslu.
Líffæragjafar í réttum blóðflokki eru vandfundnir og þar sem Whitby þurfti að gangast strax undir aðgerð þurfti hann að sætta sig við að fá lifur úr sjúklingi með lifrarbólgu B. Töldu læknar að ef tvær vikur hefðu liðið án þess að eitthvað yrði gert hefði Whitby hreinlega dáið. Ljóst er að ekki mátti á tæpara standa og þarf Whitby nú að verja á lyfjum það sem eftir er. Hann kveðst þó vera þakklátur fyrir að vera á lífi.
Að sögn lækna má ástand hans, það er lifrarbilunina, rekja til fæðubótarefnanna. Telja læknar að græna teið, sem var svokallaður extrakt, hafi verið einn helsti orsakavaldurinn, en auk þess kemur fram í frétt News.com.au að vísbendingar séu um að Garcinia Cambogia geti haft slæm áhrif á lifrina. Þrátt fyrir þetta eru fæðubótarefnin enn aðgengileg í verslunum í Ástralíu.
Whitby hvetur þá sem hafa hug á að nota fæðubótarefni að kynna sér efnin vel áður en notkun hefst. „Kannaðu málið og spurðu lækninn þinn um vöruna áður en þú byrjar að nota hana,“ segir hann og bætir við að besta leiðin til að ná árangri sé að borða fjölbreytta og góða fæðu í stað þess að taka inn fæðubótarefni. Segist hann vona að saga hans verði öðrum víti til varnaðar.