Svona sjá vísindamenn fyrir sér heiminn eftir 100 ár
Heimili okkar verða framleidd með hjálp þrívíddarprentara, heilu borgirnar verða til neðansjávar og sumarleyfi á sólríkum stað á þínu eigin heimili. Þetta verður veruleikinn eftir hundrað ár ef marka má skýrslu sem hópur vísindamanna setti saman, The SmartThings Future Living Report.
Hópinn skipuðu meðal annars framtíðarfræðingar, arkitektar en framtíðarfræði er fræðigrein sem miðar að því að skapa og miðla þekkingu um mögulega tæknilega, félagslega og umhverfislega þróun til lengri tíma.
Óhætt er að segja að margt athyglisvert komi fram í skýrslunni. Þannig telur hópurinn að eftir hundrað ár muni fólki gefast möguleiki á að búa í stórhysum sem ef til vill mætti nefna jarðarkljúfa. Þá muni fólk búa í risastórum kúlum neðansjávar, en samhliða hækkandi yfirborði sjávar gæti komið að þeim tímapunkti að við þurfum að finna aðra búsetukosti en ofan jarðar.
Í skýrslunni kemur einnig fram að drónar muni gegna veigamiklu hlutverki þegar fram líða stundir. Þannig verði hægt að festa heimili á stóra og mikla dróna og fljúga þeim til heitari staða, til dæmis yfir sumartímann þegar fjölskyldur fara í ferðalög.
„Líf okkar í dag er mjög frábrugðið því sem það var fyrir hundrað árum. Internetið hefur bylting orðið á því hvernig við höfum samskipti, lærum og stjórnum lífi okkar […] Á næstu hundrað árum verða enn frekari breytingar á þessum þáttum,“ segir Dr. Maggie Aderin-Pocock sem er meðhöfundur skýrslunnar.
Í skýrslunni kemur einnig fram að þrívíddarprentun verði stór þáttur í lífi jarðarbúa eftir hundrað ár. Þannig verði nokkuð auðvelt fyrir fólk að byggja draumaheimilið. Þá verði hægt að þrívíddarprenta mat og kaupa gæðamat frá bestu veitingastöðum heims til að borða heima á afar einfaldan og þægilegan hátt. Þá muni samskipti fólks taka gríðarlegum breytingum með frekari þróun heilmyndar (e. Hologram), sýndarveruleikatækni sem er þegar orðin að veruleika.
Þá kemur fram í skýrslunni að á þessum tímapunkti, eftir um það bil hundrað ár, verði jarðarbúar búnir að stofna nýlendur á tunglinu og Mars og þá verði flugfélög farin að bjóða upp á áætlunarflug út í geiminn. Loks má geta þess að samkvæmt skýrslunni verða veggir heimila úr LED-skjáum sem mun gera fólki kleift að breyta litum á veggjunum. Mun málningarvinna, sem getur verið þreytandi, því heyra sögunni til.
Hér að neðan má sjá nokkrar myndir úr skýrslunni: