Verslun Guðlaugs A. Magnússonar er heillandi viðkomustaður á jólaröltinu í miðbænum
Verslun Guðlaugs A. Magnússonar, Skólavörðustíg 10, var stofnuð árið 1924 og er því ein elsta skartgripaverslun landsins. Guðlaugur var gullsmiður að mennt en afkomendur hans lærðu listina af honum. Hanna Sigríður Magnúsdóttir rekur fyrirtækið í dag og hannar skartgripi sem seldir eru í versluninni. Þar ber hæst jólaskeiðina svonefndu, sem hefur verið hönnuð og seld fyrir jólin í 70 ár.
Sjá nánar um jólaskeiðina hér og hér.
Meðal annarra merkilegra gripa í versluninni eru Engill vonar sem gefinn er út árlega ásamt árlegu snjókorni. Nýjasta hönnunarvara Hönnu er hinn svokallaði Draumafangari. Hægt er að hengja neðan úr honum engla vonarinnar og englarnir færa eigandanum drauma hans.
Hanna gerir einnig skartgripi fyrir ferðamenn úr íslensku hrauni af Reykjanesi, Snæfellsnesi og víðar. Hún gerir líka alls kyns festar úr eðalsteinum og silfri, og töfrastafi úr stáli.
Sem fyrr segir var fyrirtækið stofnað árið 1924 er Guðlaugur A. Magnússon lauk gullsmíðanámi á Ísafirði. Fyrirtækið rak hann allt til ótímabærs dauðadags síns árið 1952. Hann hafði farið í framhaldsnám í silfurborðbúnaðarsmíði hjá Michaelsen í Köben og lærði einnig á horn hjá konunglega tónlistarskólanum í Köben undir leiðsögn Sörensen nokkurs frá 1934 til 1936. Þegar heim var komið tók við mikil vinna við að skapa þann ramma sem fyrirtækið er enn rekið eftir. Silfurborðbúnaðinn íslenska hóf hann framleiðslu á 1936 og hvert munstur á fætur öðru var stansað í silfur og er enn í dag. Árið 1946 hóf hann framleiðslu á drottningargrip fyrirtækisins sem er hin sívinsæla jólaskeið Guðlaugs og hefur verið gefin út árlega undir skrásettu vörumerki Guðlaugs A Magnússonar. Við fyrirtækinu tók yngsti sonur Guðlaugs, Magnús árið 1963 og rak með miklum myndarbrag og jók orðspor föður síns.
Sem fyrr segir rekur Hanna Sigríður, dóttir Magnúsar, fyrirtækið í dag. Hanna segir að miðbær Reykjavíkur sé að fá á sig mjög ólíka ásýnd með fjölgun ferðamanna til landsins. Skólavörðustígur sé fastur punktur í ferð hvers gests til Reykjavíkur þar sem Hallgrímskirkja trónir efst á Skólavörðuholtinu. Jólaskeiðin frá Guðlaugi hefur vakið sérstaklega mikla athygli sem íslenskur hönnunargripur hjá erlendum fagurkerum.
Á undanförnum árum hefur jólaskeiðin og aðrar vörur fyrirtækisins náð mikilli fótfestu erlendis. Hanna segir að almennt sé þekking erlendra ferðamanna mikil á handverki, hönnun og virði eðalmálma. Saga fyrirtækis Guðlaugs sé talin sérstaklega merkileg þar sem hún hefur haldist mann fram af manni.
Miðbærinn iðar af lífi fyrir jólin og það ætti að vera ómissandi hluti af jólabúningi allra að njóta stemningarinnar í miðbænum rétt fyrir jólin um leið og síðustu jólagjafirnar eru keyptar. Verslun Guðlaugs A. Magnússonar, er heillandi viðkomustaður í miðbænum í jólaösinni, vegna merkilegrar sögu sinnar, fallegrar hönnunar og afbragsgóðra jólagjafahugmynda sem þar leynast.