Stafgildunum hefur verið breytt frá fyrstu útgáfu
Scrabble, líklega vinsælasta borðspil á Íslandi undanfarin ár, hefur verið endurútefið. Búið er að breyta stafgildum og fjölda stafa í þessari nýju útgáfu, frá því sem áður var. „Pokinn“ er þó ekki sá sami og Skraflfélag Íslands lét gera fyrir skömmu, eftir mikla yfirlegu og útreikninga.
Sex E (stafgildið 1) eru til dæmis í þessum poka en í poka Skraflfélags Íslands eru þau aðeins þrjú og hafa stafgildið 3. Eins og í upphaflegu útgáfunni fást 9 stig fyrir Ý en í nýja poka Skraflfélagsins eru stigin 5.
Á meðal breytinga í þessari útgáfu af Scrabble má nefna að M hefur stafgildið 3 en hafði 2 áður. O hefur stafgildið 4 en hafði 3 áður. Hér er því um að ræða þriðja pokann sem fer í umferð á Íslandi.
Skrafl hefur notið fádæma vinsælda á Íslandi. Á vefsíðu netskrafls eru þannig meira en 16 þúsund Íslendingar skráðir.
Það er Mattel sem gefur út spilið, eins og áður, en fram kemur að nýja útgáfan taki mið af þróun íslenskrar tungu og málevenju. „Með breytingunum verður spilið enn áhugaverðara fyrir leikmenn,“ segir í tilkynningu.
Bríkurnar fjórar sem og stafirnir eru ekki lengur úr plasti, eins og leikmenn þekkja, heldur úr tré. „Bæði stafatöflur og stafastandar eru úr viði og er þess vandlega gætt að allar umhverfiskröfur séu uppfylltar varðandi hráefnið.“
„Við erum virkilega ánægð að Scrabble skuli á nýjan leik vera í boði á Íslandi,“ er í tilkynningunni haft eftir Jo Gunn, vörumerkjastjóra Mattel á Norðurlöndum og Bretlandi.