Með lækkandi sól styttist í að skíðavertíðin fari af stað eftir sumarið. Skíðaferðalög eru skemmtileg en hjá mörgum enda þau með ósköpum. Árlega beinbrotna margir á skíðum. Oftast er um að ræða áverka á hnjám, ökklum, fingrum eða viðbeini, en alvarlegri slys eins og höfuðkúpubrot, og þaðan af verri, eru sem betur fer fátíð. Ekki er algerlega hægt að koma í veg fyrir slys en með forsjálni er hægt að fækka þeim svo um munar. Forsjálni og varkárni eru lykilorðin.
Nokkur heilræði:
Ekki fara ótroðnar slóðir.
Hvílið ykkur þegar þreytan segir til sín.
Ekki vera á skíðum í vondu veðri og slæmu skyggni.
Látið vita af ferðum ykkar.
Áfengi og skíðaiðkun eiga enga samleið.
Hvað er ráðlegt að hafa meðferðis þegar lagt er í skíðaferð?
Minnismiði:
• Teygjubindi
• Sólarvörn
• Plástur á blöðrur
• Nærföt sem hleypa lofti í gegn
• Vindjakki
• Verkjatöflur
• Sólgleraugu, m.a. til að komast hjá snjóblindu