Árið 2007 hóf vélvirkinn Guðmundur Valdimarsson að hanna og smíða kubbaljós á verkstæði sínu. Vegna mikillar eftirspurnar dafnaði og stækkaði þessi starfsemi ört. Árið 2014 stofnaði Guðmundur ásamt eiginkonu sinni, Ósk Guðmundsdóttur, fyrirtækið Gæðastál sem sinnir margs konar járnsmíði og hefur um 12 manns í vinnu. Kubbaljós eru ein deild innan þessa litla og frísklega fyrirtækis, þar sem sérhæfingin liggur í hönnun, framleiðslu og sölu á kubbaljósum og hringljósum.
„Þetta eru kubbalaga ljós sem fest eru á veggi eða upp í loft. Við fórum líka út í að búa til hringljós vegna mikillar eftirspurnar eftir þeim. Við framleiðum einnig útistaura og útiljós,“ segir Ósk Guðmundsdóttir.
Sem fyrr segir eru kubbaljósin bara lítill hluti af starfsemi Gæðastáls en fyrirtækið þjónustar fjölda fyrirtækja með alls kyns smíði og viðhaldi, m.a. fiskbúðir og fiskverkanir.
„Við erum með litla ljósabúð á Smiðjuvegi 4 og þar er líka verkstæðið þar sem ljósin eru búin til,“ segir Ósk. Kubbaljós státa bæði af hagstæðu verði og persónulegri þjónustu:
„Við erum ódýrust í kubbaljósum og smæðin gerir okkur það kleift, við erum að selja beint úr verksmiðjunni. Fólki finnst mjög gaman að koma hingað í ljósabúðina okkar því þetta er svona beint-frá-býli upplifun, að kaupa ljósin á staðnum þar sem þau eru smíðuð. Við veitum persónulega þjónustu og sérsmíðum ljós fyrir þá sem þess óska. Bjóðum til dæmis upp á aðrar stærðir en þær sem eru á lager, smíðum ljós í hallandi loft og reynum að koma til móts við þarfir viðskiptavinarins. Svona þjónustu er ekki hægt að fá í stórverslun þar sem viðskiptavinurinn verður að gera sér að góðu það sem er til í hillunum.“
Ljósin eru smíðuð úr áli og eru útiljósin sérhönnuð fyrir íslenska veðráttu og hafa reynst gríðarlega vel. Þau eru síðan dufthúðuð í hinum ýmsu litum og er hægt að fá þau í flestum RAL-litum.
Ljósabúð Kubbaljós er sem fyrr segir til húsa að Smiðjuvegi 4, Kópavogi. Opið er virka daga frá kl. 11 til 17 og laugardaga frá 11 til 14.
Nánari upplýsingar og fleiri myndir er að finna á vefsíðunni kubbaljos.is.