Skoðaðu hópmatseðil Burro hér fyrir neðan
Það var ekki teiti af verri gerðinni þegar veitingastaðirnir Burro og Pablo Discobar opnuðu þann 10. nóvember með mariachi stæl sem Ricky Martin væri stoltur af. Viðtökurnar síðan þá hafa farið fram úr björtustu vonum eigendanna fjögurra, Eyþórs, Gunnsteins, Róberts og Samúels, sem eru allir maukmeyrir yfir vinsældum staðanna tveggja.
„Við félagarnir höfðum lengi gengið með þann draum í maganum að opna veitingastað hér heima með suðuramerísku þema. Þegar kom að því að velja nafn á veitingastaðinn vildum við ekki löng krúsídúllunöfn sem heimamenn ættu erfitt með að bera fram, en samt vildum við hafa nafn á spænsku eða portúgölsku. Orðið Burro þýðir asni sem gengur svona líka vel upp innan hugmyndafræði okkar, það er að taka sig ekki of alvarlega. Pablo Discobar varð svo til vegna þess að húsnæðið bauð upp á það að vera með tvo samliggjandi staði. Staðirnir eru ólíkir, en samt tengdir og því urðu nöfnin að passa saman. Burro og Pablo, eða Pablo og Asninn urðu því fyrir valinu. Snillingurinn Sigurður Oddson, sem er listamaður á heimsmælikvarða, hannaði fyrir okkur lógóið og allt í kringum það og erum við virkilega ánægðir með hans verk,“ segir Gunnsteinn.
Á veitingastaðnum Burro er áhersla lögð á nýmóðins mið- og suðurameríska matseld allt frá henni Mexíkó til Argentínu. Allir réttirnir eru svokallaðir modern latino tapas réttir og gerðir til þess að deila. Þar má nefna eins kílóa steikarplatta sem er hannaður með vinahópa í huga. Þannig myndast gífurlega skemmtileg stemning við borðið þar sem matargestir deila bæði mat og upplifun.
Á hæðinni fyrir ofan Burro reka kumpánarnir kokteilbarinn Pablo Discobar og áður en snætt er á Burro er tilvalið að skella sér þangað á sannkallaða hamingjustund frá 16:00-18:00, enda svífur þar hressleikinn yfir vötnum og góð leið til þess að rífa upp stemninguna áður en sest er að snæðingi. Hanastélshristarar Pablo Discobars kalla ekki allt ömmu sína og töfra fram hverja snilldina á fætur annarri fyrir gesti og gangandi. Hægt er að skoða úrvalið á vefsíðu staðanna tveggja eða á matseðli Burro.
Kokkar Burro eru ekki af verri endanum. „Við erum að springa úr stolti yfir kokkaliðinu því þetta eru gífurlega hæfileikaríkir drengir. Yfirmatreiðslumennirnir eru þeir Daníel Jóhannson og Theodór Dreki Árnason. Báðir eru þeir reynsluboltar, fjallmyndalegir og stórskemmtilegir. Svo kunna þeir fyrir sér innan eldhússins, stjórna því af fagmennsku og ætíð með bros á vörum. Einn eigandanna, Eyþór Mar Halldórsson er einnig ástríðufullur matreiðslumeistari og alltaf með puttanna í gerð matseðla og réttanna. Hann hefur að auki opnað sem eigandi og verið yfirkokkur Public House, Sushi Samba, Uno og Íslenska barsins við Austurvöll,“ segir Gunnsteinn og stoltið leynir sér ekki. „Við höfum líka verið svo lukkulegir að hafa gestakokk okkur til halds og traust fyrstu mánuðina, en það er hann Mark Morrans meistarakokkur, sem hefur meðal annars matreitt á hinum heimsþekkta veitingastað Nobu, en eldar nú landsins bestu suðuramerísku steikur fyrir okkur.“
„Það hefur verið stanslaust partí hjá Pablo, hann bara stoppar ekki, enda eitursvalur í diskógallanum og þessi sambúð hans og Burro fer vel í viðskiptavini,“ segir Gunnsteinn. Hann segir flesta skella sér í eins og einn hamingjustundarkokteil á Pablo Discobar. Gunnsteinn mælir með því að byrja á einu Disco beri, „svo koma menn niður á Burro og deila gómsætum réttum með suðuramerísku ívafi, sitja, spjalla og njóta sín. Auðvitað er hægt að kalla eftir einum og einum Clover Club eða Gonzales niður á Burro á meðan matast er. Langflestir vilja svo fara aftur í stuðið til Pablo eftir notarlega stund á Burro,“ segir Gunnsteinn.
Aðspurður hvort einhver jólastemning verði á Burro og Pablo segir Gunnsteinn að þeir ætli sér nú ekki að skreyta diskókúlu staðarins sérstaklega. Þá langi frekar til að einbeita sér að þemadögum líkt og Día de muertos, sem passar inn í hugmyndafræði staðanna, „því fyrir einhverjum er churros kannski eins og malt og appelsín er fyrir öðrum,“ segir Gunnsteinn. Það má alltaf búast við einhverju skemmtilegu frá Burro og Pablo enda er stefnan sú að vanda alltaf til verks, ásamt því að njóta, slaka á og skemmta sér.
Burro og Pablo eru staðsettir að Veltusundi 1, við Ingólfstorg, 101 Reykjavík.
Hægt er að panta borð í síma 552-7333.
Einnig má senda vefpóst á burro@burro.is eða pablo@discobar.is
Nánari upplýsingar má nálgast á sameiginlegri vefsíðu staðanna.