Dillaðu þér með diskófjöri á aðventu
Boney M. var ein af vinsælustu hljómsveitum diskótímabilsins, hún var stofnuð árið 1976 og hefur starfað nær óslitið síðan í einni eða annarri mynd. Aðalsöngkonan Liz Mitchell er sú eina af upprunalegum meðlimum sem er enn að syngja undir nafni Boney M. En hún sýndi það og sannaði á jólatónleikunum í fyrra að hún hefur engu gleymt, hvorki í söng, hreyfingum eða sjarma. Tónleikagestir risu úr sætum sínum strax á fyrsta lagi og margir þeirra voru ekkert að hafa fyrir því að setjast aftur, slíkt var stuðið. Óhætt er að segja að tónleikarnir hafi komið gestum í sannkallað jólastuð. Og í lok tónleikanna gerðist nokkuð sem ég hef ekki áður séð á tónleikum í Hörpu, tónleikagestir flykktust upp á svið og dilluðu sér með Mitchell og hljómsveitinni.
Boney M. gáfu fyrstu jólaplötuna sína út árið 1981 og hét hún einfaldlega Christmas Album. Platan sló rækilega í gegn eins og fyrri plötur þeirra og mörg laganna eru vinsæl enn þann dag í dag þegar aðventan bankar upp á. Hver kannast ekki við lög eins og Mary´s Boy Child/Oh My Lord, Feliz Navidad og Little Drummer Boy?
Tvennir jólatónleikar í fyrra slógu í gegn og var uppselt á þá báða. Boney M. heimsækir Hörpu aftur nú í ár og heldur tónleika sunnudaginn 4. desember næstkomandi. Söngdívan Liz Mitchell er fremst í flokki, en auk hennar syngja tvær söngkonur og einn söngvari og níu manna hljómsveit spilar undir. Enn er hægt að nálgast miða á tónleikana inn á tix.is