Þeim fjölgar sífellt sem hafa gaman af að vera í skrautlegum, fallegum og jafnvel skrýtnum sokkum, á meðan þeim fækkar sem líta á sokka sem hversdagslega nauðsyn eingöngu og klæða sig bara í svarta eða gráa sokka á hverjum morgni. Sokkaskúffan er ný og alveg stórskemmtileg vefverslun sem býður upp á feikilega mikið úrval af fallegum, litríkum og bráðsniðugum sokkum. Sambýliskonurnar Fríða Agnarsdóttir og Hulda Ólafsdóttir Klein reka Sokkaskúffuna saman, en þær stofnuðu fyrirtækið á nýliðnu sumri og er lagerinn í einu herbergi á heimili þeirra. Viðtökur hafa verið verulega góðar enda eru litríkir og skrautlegir sokkar sífellt að verða vinsælli.
„Við pössum upp á að vera ekki með einlita sokka. Við veljum bara það skrautlega. Við teljum að markaðurinn fyrir litríka vöru sé allur að lifna við. Við bjóðum upp á sokka fyrir alla, frá ungbörnum upp í harðfullorðið fólk. En í augnablikinu er stærsti markaðurinn okkar fyrir krakkasokka annars vegar og hins vegar kvensokka,“ segir Fríða í samtali við DV.
Blaðamaður spyr hvort fullorðnir karlmenn séu kannski tregastir til að ganga um í litríkum sokkum. Fríða segir að það megi til sanns vegar færa en þeir séu samt allir að koma til:
„Karlmenn eru að verða opnari fyrir því að vera ekki bara í svörtum sokkum við jakkafötin. Ég hitti einn í brúðkaupi um daginn sem hafði keypt sér mjög skondna sokka frá okkur en hann sagðist ekki vera tilbúinn að klæðast þeim í brúðkaupi, frekar hversdags.“
Sokkarnir eru enn sem komið er eingöngu seldir í gegnum vefverslunina á vefsvæðinu sokkaskuffan.is. Vörur eru sendar hvert á land sem er og er lagður á lítilsháttar sendingarkostnaður. Óhætt er að segja að vörurnar séu á hagstæðu verði en lesendur geta séð það sjálfir, sem og skoðað úrvalið, með því að fara inn á sokkaskuffan.is. Þær Fríða og Hulda stefna hins vegar að því að opna sokkaverslun í framtíðinni ásamt því að reka vefverslunina áfram.