Rannsóknir benda til að streita sé að verða eitt algengasta vinnutengda vandamál hins vestræna heims og að afleiðingarnar varði bæði starfsmenn og vinnuveitendur.
Vinnutengd streita er afleiðing þess að ekki er samræmi milli krafna sem gerðar eru til starfsmanna og væntinga og þarfa þeirra, eða getu þeirra til að ráða við viðfangsefni sem þeim eru falin.
Langvarandi streita getur haft í för með sér þunglyndi, kvíða, kulnun, truflun á ónæmiskerfi og hjarta- og æðasjúkdóma. Þá hefur streita áhrif á afköst fólks og starfsemi vinnustaða vegna þess að hún dregur úr vinnuframlagi, eykur veikindafjarvistir og starfsmannaveltu.
Í Bretlandi var áætlað að streita kostaði vinnuveitendur á milli 4–5 milljarða króna á ári 1996. Áætlaður fjöldi vinnudaga sem glatast vegna streitu hefur síðan þá tvöfaldast og dögunum fer fjölgandi. En hvað geta stjórnendur gert til að hafa áhrif til hins betra? Í grein sinni á vef Doktor.is birti Anna Björg Aradóttir hjúkrunarfræðingur lista sem stjórnendur ættu að leggja áherslu á.
• Tileinka sér styðjandi stjórnunarhætti.
• Veita nýjum starfsmönnum nægilegar upplýsingar og þjálfun.
• Auka áhrif starfsmanna á vinnu sína.
• Stuðla að heilbrigðum lífsháttum starfsmanna.
• Umbuna starfsmönnum á ýmsa vegu.
• Aðstoða starfsmenn við að ráða við streituvaldandi þætti í vinnunni.
• Tryggja markvisst upplýsingaflæði frá stjórnendum til starfsmanna og milli starfsmanna.
• Tryggja öruggt vinnuumhverfi.
• Styðja endurhæfingu starfsmanna sem þess þurfa og aðlaga vinnu að getu starfsmanna hverju sinni.