Eva Dögg deilir sáraeinfaldri og skotheldri uppskrift
„Héðan í frá mun ég aðeins nota þessa aðferð.“ Þetta segir Eva Dögg Þorvaldsdóttir, matreiðslunemi í Perlunni, sem sló í gegn á Facebook-síðunni Matartips á dögunum eftir að hún setti inn sáraeinfalda en skothelda leið til að elda safaríka nautalund sem allir ættu að geta leikið eftir.
Eva Dögg hefur alla tíð haft gríðarlega mikinn áhuga á matreiðslu. Síðastliðna helgi ætlaði hún að elda nautaland en langaði að prófa eitthvað nýtt.
„Ég horfi mikið á matreiðsluþætti og les mér til á netinu. Einhvers staðar sá ég að það væri hægt að gera nautalund heima með því að setja hana í plastpoka og kælibox áður en hún er elduð. Þar sem ég átti hvorugt ákvað ég í staðinn að vefja hana inn í matarplast.“
Eva Dögg vafði sex til sjö umferðir af plastinu utan um lundina. „Ég vafði hana mjög fast en áður pipraði ég hana. Ég sleppti saltinu af því að það hefði dregið vökvann úr kjötinu í sig.“
Lundin var síðan sett í ofn sem var forhitaður upp í 60° og var þar í tvær klukkustundir.
„Ég viðurkenni að ég var örlítið stressuð og kærastinn minn var handviss um að ég væri að skemma kjötið.“
Að tveimur klukkustundum liðnum tók Eva Dögg lundina út úr ofninum og lét hana bíða í 10 mínútur.
Síðan saltaði hún lundina, hitaði smjör á pönnu og brúnaði kjötið. Þegar steikin var orðin brúnuð lét Eva kjötið aftur standa í nokkrar mínútur áður en hún skar það niður og bar á borð.
„Kjötið var fullkomið. Það eina sem ég geri öðruvísi næst og ráðlegg öðrum er að láta lundina hvíla í allavega 7 til 8 mínútur, í lokin, áður en hún er skorin.“
Þá segir Eva að hingað til hafi hún alltaf verið á nálum á meðan hún er að elda nautalund.
„Áður var ég alltaf með áhyggjur af því hvort lundin yrði ofelduð. Það er í raun og veru ekki hægt að ofelda hana með þessari aðferð þar sem kjarnhitinn fer aldrei yfir 60 gráður. Þess vegna, og hversu fullkomlega hún heppnaðist, á ég aðeins eftir að nota þessa aðferð þegar ég elda nautalund.“