Fyrsta hlaup Davids Clark entist í 15 sekúndur
Eftir að fyrirtæki Bandaríkjamannsins Davids Clark fór á hausinn lenti hann í erfiðleikum í einkalífinu. Hann fór að bryðja verkjatöflur og drekka áfengi í miklum mæli og þyngdist mikið.
Þegar hann var orðinn 160 kíló og með of háan blóþrýsting ákvað hann að taka sig á.
Clark hafði reynt ýmsar leiðir til að léttast, til dæmis Atkins-kúrinn og South Beach-mataræðið, en alltaf fór hann í sama farið aftur. Þann 6. ágúst 2005 ákvað Clark að reima á sig hlaupaskóna og fór út að hlaupa. Hans fyrsta hlaup entist aðeins í 15 sekúndur en það var samt eitthvað til að byggja á. „Á hverjum degi hafði ég þetta einfalda verkefni. Ef ég fór ekki út að hlaupa einn dag þýddi það uppgjöf,“ segir Clark um það hvernig hann veitti sér innblástur. Þolið jókst hægt og rólega og innan þriggja mánaða gat hann hlaupið nokkra kílómetra í senn.
Clark segir við Men‘s Health að lykillinn hafi samt verið mataræðið og sniðgekk hann allt sem kom ójafnvægi á blóðsykurinn. Hann borðaði samt ávexti auk þess að innbyrða mikið af grænmeti, eggjum og mögru kjöti. Þá leyfði hann sér stundum að borða möndlur með dökkum súkkulaðihjúp.
Á fimmtán mánuðum missti Clark helming líkamsþyngdar sinnar og er í dag maraþonhlaupari. Hann hleypur stundum lengri vegalengdir en maraþon og fer tiltölulega létt með það. Hann rekur líkamsræktarstöð þar sem áhersla er lögð á stöðugleika. „Eftir smá tíma fer erfiðið – og árangurinn – að verða sjálfsagður hluti af deginum.“