Vegan-fæði umbreytti lífi einhverfs drengs sem hafði glímt við maga- og svefnvandamál frá fæðingu
Í upphafi árs tók Kristín Gígja Sigurðardóttir ákvörðun sem hefur síðan haft víðtæk áhrif á líf hennar og fjölskyldunnar. Gígja, eins og hún er alltaf kölluð, ákvað að gerast vegan og í kjölfarið ákváðu eiginmaður hennar, Eiríkur Birkir, og börnin þeirra þrjú að feta sömu braut.
Elsti sonur hjónanna, Sigurður Einar, sem hefur glímt við margþætt magavandamál; lystarleysi, óreglulegan svefn og kvíða, hefur náð undraverðum bata eftir að hann byrjaði á vegan-mataræði.
Upphaflega ákvað Gígja að breyta um lífsstíl og gerast vegan því hana langaði að hlúa betur að heilsunni. Hún hafði velt því fyrir sér lengi en henti sér í djúpu laugina þann 1. febrúar síðastliðinn. Nokkrum mánuðum áður fluttist fjölskyldan búferlum til Sölvesborg í Svíþjóð.
Ástæðan fyrir flutningunum var fyrst og fremst sú að Gígja vildi skapa Sigurði Einari, sem er 12 ára og greindur með dæmigerða einhverfu, betra umhverfi þar sem hann fengi betri þjónustu.
„Hann hefur opnað sig mikið síðan við komum til Svíþjóðar. Við blómstrum öll hérna svo við sjáum svo sannarlega ekki eftir þessari ákvörðun, sem var þó ansi lengi að fæðast,“ segir Gígja.
Sigurður Einar, sem er yfirleitt kallaður Diddi, hefur frá unga aldri glímt við meltingarvandamál sem hafa háð honum töluvert í daglegu lífi. Síðustu ár hafði hann daglega tekið magalyf samkvæmt læknisráði.
„Þetta var endalaust basl. Hann var alltaf stíflaður og með magakrampa, sama hvað við reyndum í samráði við lækna hans,“ segir Gígja og bætir við að Diddi hefði ætíð verið lystarlítill og það hefði verið mikil þolinmæðisvinna að fá hann til að klára matinn sinn.
„Það var eins og hann tengdi saman að ef hann borðaði mat þá yrði honum illt í maganum. Það var líka ömurlegt að sjá hvað hann naut þess aldrei að borða eins og önnur börn.“
Síðustu ár hafði Gígja reynt ýmislegt í þeirri von að Didda liði betur í maganum. Hún tók tímabundið út mjólk, sykur og glúten hjá honum. Það bar þó ekki tilætlaðan árangur svo Gígja var komin í hálfgert öngstræti varðandi magavandamál sonarins þegar þau fóru á vegan-fæði.
„Ég var ekki með neinar væntingar, hafði ekki einu sinni hugsað út í að þetta gæti verið lausnin. Þá hefði ég aldrei trúað því hvað vegan-fæðið umbreytti lífi hans og okkar.“
Líkt og áður segir var svefn Didda í miklu ólagi. „Stundum svaf hann ekki neitt, sem hafði gríðarleg áhrif á okkur foreldrana. Það kom reglulega fyrir að við mættum ósofin í vinnuna.“
Núna er Diddi búinn að vera vegan í tæplega hálft ár. Hann er hættur á öllum magalyfjum, það eru engin merki um hægðatregðu né magaverki, klósettferðirnar eru eðlilegar og matarlystin, að sögn Gígju, er dásamleg.
„Hann borðar núna, í fyrsta skipti frá því að hann fæddist, mikið og vel. Ég var búin að ákveða að hann væri matvandur en sú er nú alls ekki raunin. Hann prófaði meira að segja vegan-sushi um daginn. Þá er hann í fyrsta skiptið farinn að biðja um ábót á diskinn.“
Diddi er jafnframt farinn að sofa heilu næturnar. „Þeir sem þekkja mig og mína fjölskyldu vita að við erum búin að vera vakandi með barninu í mörg ár. Í fyrsta skiptið frá því að hann fæddist sofnar hann klukkan tíu á kvöldin og sefur til klukkan sex á morgnana.“
Gígja segir að þó svo að öll fjölskyldan finni mikinn mun á sér andlega og líkamlega eftir að þau urðu vegan þá hafi langmesta breytingin orðið á Didda. Auk þess sem hann er á 100 prósent vegan-mataræði heima þá er boðið upp á vegan-máltíðir í skólum allra barnanna.
„Ég mæli hiklaust með að fólk kynni sér þennan lífsstíl og prófi sig áfram. Hann hefur að minnsta kosti margborgað sig fyrir okkur.“