Sigraði á móti í Las Vegas í nótt – Borðar sex til sjö máltíðir á dag
Margrét Edda Gnarr sigraði á IFBB Legends Pro Classic-atvinnumannamótinu sem haldið var í Las Vegas í nótt. Margrét hefur lagt mikið á sig undanfarna mánuði en DV lagði á dögunum fyrir hana nokkrar spurningar þar sem hún segir meðal annars frá því hvað hún borðar og hvað hún æfir mikið.
„Ég hafði eitthvað fylgst með fitness hér á landi í gegnum árin en það var ekki fyrr en byrjað var að keppa í módel-fitness sem ég fékk fyrst áhuga á að keppa. Mér var oft ráðlagt að reyna fyrir mér í módelbransanum en alltaf fékk ég að heyra að ég væri of stælt og of lágvaxin svo módel-fitness flokkurinn var fullkominn fyrir mig.“
„Ég fer eftir æfinga- og matarprógrömmum frá keppnisþjálfara mínum, Jóhanni Norðfjörð, sem er einn færasti keppnisþjálfari á landinu og einnig Alþjóðadómari hjá IFBB. Ég æfi svo keppnispósur á hverjum degi og tek slökun í Laugum Spa allavega einu sinni í viku.“
„Keppnisþjálfari minn sér um mín matarprógrömm og fer ég eftir þeim. Ég borða sex til sjö máltíðir á dag á tveggja tíma fresti. Prógrömmin innihalda yfirleitt haframjöl, Whey-prótein, ávexti, magurt kjöt, brún hrísgrjón, sætar kartöflur og mikið magn af grænmeti.“
„Ég lyfti sex sinnum í viku, tek auka brennslur fimm sinnum í viku og æfi KickFit tvisvar í viku. Lyftingaæfingar byrja á góðri og langri upphitun. Lyftingatækni fer eftir hvaða vöðvahóp ég er að æfa og er ég þá annaðhvort að lyfta þungu til að stækka eða léttu til að móta. Ég kenni KickFit tvisvar í viku og er mikið með á æfingunum en KickFit er æfingakerfi sem ég setti saman og er blanda af taekwondo og fitness.“