Rúnar Geirmundsson kraftlyftingamaður keppir á Tattoed and Strong
Margfaldur Íslands- og heimsmethafi í kraftlyftingum, Rúnar Geirmundsson, tekur þátt í sterku en skemmtilegu kraftlyftingamóti í byrjun mars. Mótið fer fram í Manchesterborg á Englandi og gæti kallast upp á íslensku „Sterkir og flúraðir“.
Keppnin er á vegum Alþjóða kraftlyftingasambandsins en með þessari skemmtilegu viðbót sem lýtur að húðflúrinu. Mótið heitir á frummálinu Tattoed and Strong og verður haldið dagana 5. og 6. mars, það er hluti af húðflúrsráðstefnu sem kallast Tattoo Tea Party.
Rúnar er einn af okkar efnilegustu kraftlyftingamönnum og hefur rakað inn titlum bæði á Íslandi og í Evrópu. Hann er nú búinn að segja skilið við unglingaflokkana og er kominn á stall með stóru körlunum.
Rúnar hefur ekki áður keppt á þessu móti en hann er sannfærður um að hann vinni til verðlauna. „Annars væri ég ekki að fara út. Þetta er ekki ungmennafélagsmót og snýst ekki um að taka þátt. Ég er að fara til að vinna,“ segir Rúnar sem er á fullu að undirbúa sig. Hann keppir í undir 75 kílógramma flokki og er þetta fyrsta alþjóðlega mótið hans í þeim þyngdarflokki og um leið er þetta fyrsta árið þar sem hann er kominn upp í fullorðinsflokk. Rúnar er 24 ára gamall og keppir þar af leiðandi einnig í opnum flokki. Hann veit að á fyrsta ári er ekki raunhæft að reikna með verðlaunum á þeim vettvangi.
Hef orðið Íslandsmeistari oftar en 30 sinnum og á öll Íslandsmetin i öllum greinum og samanlögðu í 67,5 kg, 75 kg og 82,5 kg flokki, hjá nokkrum samböndum. Þrefaldur Evrópumeistari og sigurvegari yfir heildina á stigum líka. Á heimsmet í réttstöðu í flokki 17–19 ára. Heimsmet í bekk, beygju, réttstöðu og samanlögðu í unglingaflokki -82,5 kg flokki.
Hann man ekki lengur hversu mörg Íslandsmet hann hefur sett. Heimsmetin eru líka orðin mörg.
En hvaða met er Rúnar ánægðastur með? Hann hugsar sig ekki lengi um. „Það er hnébeygjan.“ Metið er 280 kg. Þegar Rúnar setti það var hann sjálfur 79,7 kg. Hann er að berjast við að klára 300 kg og er ekki langt frá því.
Það er óhætt að fullyrða að hann er einn af þeim Íslendingum sem gengið hafa hvað lengst í að fá sér húðflúr. Nýlega bætti hann við flúri á hnakkann á sér og hann er með rýting við gagnaugað. Hann er flúraður frá tábergi upp á höfuð. Auðvitað er hægt að troða fleiri myndum á hann og það er eitthvað sem hann er einmitt að íhuga.