Viðurkenning frá Gordon Ramsay – Gaf reykta laxinum fyrstu einkun
Fiskás er staðsett við tvær flottustu laxár landsins, Ytri- og Eystri Rangá. Starfsemin hófst sumarið 2010 með reykingu á laxi. Í nóvember sama ár opnuðu eigendur fyrirtækisins fiskbúð á Hellu. Torfi Sigurðsson, framkvæmdastjóri og einn af þremur eigendum fyrirtækisins, segir Fiskás hafa það að markmiði að þjónusta laxveiðimenn á Íslandi og hafa laxveiðimenn, bæði íslenskir og erlendir, sem veiða í Rangánum notað þjónustuna og verið mjög ánægðir með vörurnar sem Fiskás býður upp á að sögn Torfa. „Fyrirtækið þjónustar einnig heimafólk og fyrirtæki á Suðurlandi á ferskum fiski sem keyptur er á markaði,“ segir Torfi.
„Það er gaman að segja frá því að sælkerakokkurinn Gordon Ramsay gaf okkur fyrstu einkunn fyrir reykta laxinn okkar,“ segir Torfi. Að sögn Torfa borðaði Gordon heilt flak af reyktum laxi frá Fiskás á degi hverjum þegar hann var við veiði á svæðinu. Torfi er afar ánægður með hversu vel Gordon líkaði laxinn. „Það er óhætt að segja að það sé öflug viðurkenning þegar heimsklassa sælkerakokkur leggur blessun sína og rúmlega það yfir vöru sem maður er að framleiða,“ segir hann.
Hjá Fiskási starfa fjórir til sex starfsmenn eftir vertíðum. „Við erum að reykja fisk yfir sumarmánuðina og fram að áramótum en þá minnkar örtröðin örlítið. Hins vegar er mikið að gera allan ársins hring í ferskum fiski hjá okkur þar sem við erum að sinna hótelunum og skólunum á svæðinu með slíkar vörur,“ segir Torfi.
Sem fyrr segir þá rekur Fiskás verslun undir sama nafni sem er opin alla virka daga frá kl. 10 – 17. Tilvalið er fyrir ferðalanga og sumarhúsaeigendur í grennd að renna við í versluninni og ná sér í úrvals fiskmeti.
Fiskás ehf l Dynskálar 50 I 850 Hella I Símnúmer: 5461210 og 6511210 www.fiskas.is