fbpx
Miðvikudagur 22.janúar 2025
FókusKynning

Draumurinn rætist í Suður-Afríku

Lilja ætlar að hafa milligöngu um sjálfboðastörf fyrir íslensk ungmenni

Ritstjórn DV
Laugardaginn 16. janúar 2016 11:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Ég held að það sé varla til betri staður til að vera með börn. Það er sumar tíu mánuði á ári og það gerir svo mikið fyrir geðheilsuna. Það er reyndar aðeins of heitt núna,“ segir Lilja Marteinsdóttir sem hefur búið ásamt fjölskyldu sinni rétt fyrir utan Höfðaborg í Suður-Afríku síðastliðin fjögur ár, en maðurinn hennar er suðurafrískur. Í hennar huga er Suður-Afríka algjör draumastaður að búa á.

„Þetta eru auðvitað tveir heimar sem mætast. Það er mikil fátækt og svo býr fólk ótrúlega vel. Það er mikil stéttaskipting,“ segir Lilja. Millistétta- og efnafólk á svæðinu býr í frekar vernduðu umhverfi en verður engu að síður alltaf vart við fátæktina, enda búa hundruð þúsunda í fátækrahverfum á svæðinu.

Lilja segir æðislegt að búa í Suður-Afríku, sérstaklega með börn.
Draumur í Suður-Afríku Lilja segir æðislegt að búa í Suður-Afríku, sérstaklega með börn.

Lætur drauminn rætast

Lilja er nýfarin að vinna eftir fæðingarorlof, en hún starfar sem markaðsstjóri hjá verktakafyrirtæki sem sérhæfir sig í uppbyggingu þorpa. Þá hefur hún gengið með hugmynd í maganum í svolítinn tíma, sem nú er að verða að veruleika. Hún er að koma á fót prógrammi fyrir íslensk ungmenni á aldrinum 15 til 20 ára sem felur í sér störf með sjálfboðasamtökum í Höfðaborg.

Um er að ræða fjögurra vikna prógramm en meðan á því stendur munu ungmennin dvelja á heimili Lilju og fjölskyldu hennar, sem samanstendur af henni, manninum hennar og þremur börnum á aldrinum 6 mánaða til 12 ára. Þá verður einnig boðið upp á ferðir þar sem þátttakendur fá að kynnast ýmsum hliðum Suður-Afríku. „Ég ætla að sjá hvernig þetta fer af stað og ef verkefnið vindur upp á sig þá væri frábært að geta bara starfað við þetta.“

Enginn valsar um á eigin vegum

Lilju hefur lengi dreymt um að geta starfað í tengslum við sjálfboðastörf og hefur verið dugleg að taka þátt í sjálfboðastarfi í Höfðaborg. „Fyrst þegar ég kom hingað þá byrjaði ég á því að vinna í súpueldhúsum og fleiri sjálfboðastörf. Það er gríðarleg þörf á sjálfboðaliðum, til dæmis á barnaheimilum. Ég var líka dugleg að fara í skiptinám þegar ég var í námi og kynntist þannig öðrum menningarheimum. Ég hef alltaf haft áhuga á því að tengja þetta einhvern veginn saman og fannst þetta vera besti tíminn og staðurinn til að láta á það reyna.“

Það styrkti Lilju enn frekar í trú sinni á verkefninu að íslenskar vinkonur hennar sem eiga börn á unglingsaldri höfðu rætt að það væri lítið í boði fyrir þennan aldursflokk. „Kosturinn við þetta verkefni er að ég er auðvitað íslensk og hef gert þetta sjálf. Ég þekki það eftir að hafa farið í skiptinám að það það fylgir því áhætta og óöryggi að fara út, sérstaklega þegar um sjálfboðastörf er að ræða. Þá er oft gist á gistiheimilum eða heima hjá fjölskyldum sem maður veit ekkert um. Ég held að það sé kostur að geta verið undir verndarvæng íslenskrar fjölskyldu. Þátttakendur taka þátt í daglegu lífi okkar. Um helgar förum við til dæmis á ströndina þar sem hægt er að læra á brimbretti og ýmislegt fleira. Það mun enginn valsa um á eigin vegum.“

„Ég held að það sé kostur að geta verið undir verndarvæng íslenskrar fjölskyldu.“

Víkkar sjóndeildarhringinn

Lilja segist hafa fengið fjölda fyrirspurna um verkefnið og það er von á fyrstu þátttakendunum á næstu vikum. „Ég veit að nokkrir hafa dottið út úr skóla. Það er svolítið vandamál á Íslandi ef krakkar detta út úr skóla eftir tíunda bekk þá er afar lítið fyrir þau að gera. Það er kannski sniðugt á þeim tímapunkti að staldra aðeins við og kynnast heiminum. Sjá að hann er aðeins stærri en Ísland. Víkka sjóndeildarhringinn aðeins og læra eitthvað nýtt.“

Lilja segir skólakrakka líka hafa sýnt verkefninu mikinn áhuga en þeir vilji helst koma yfir sumartímann, þegar frí er í skólanum. Þá er reyndar vetur í Suður-Afríku og hitastigið töluvert lægra, þó að það fari sjaldan niður fyrir 16 til 17 gráður. En það rignir töluvert yfir vetrartímann og upplifunin því kannski alveg sú sama. Stefnan er engu að síður að taka á móti hópum flesta mánuði ársins. „Við tökum samt eingöngu á móti fjórum í einu, því krakkarnir verða auðvitað inni á heimilinu hjá okkur. Það er líka betra að hafa litla hópa svo við getum haldið betur utan um þá,“ segir Lilja sem er orðin spennt að taka á móti fyrstu þátttakendunum.
Hægt að er að kynna sér prógrammið frekar á heimasíðunni nordursudur.org.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Kynning
06.06.2024

Frumsýna nýjan Škoda Kodiaq á laugardaginn

Frumsýna nýjan Škoda Kodiaq á laugardaginn
Kynning
06.06.2024

Frumsýning – Nýr Škoda Kodiaq

Frumsýning – Nýr Škoda Kodiaq
Kynning
26.01.2024

Vetrarsýning Heklu – Frumsýnum Volkswagen Touareg og rafmagnaðan ID.7

Vetrarsýning Heklu – Frumsýnum Volkswagen Touareg og rafmagnaðan ID.7
Kynning
23.01.2024

Tífalt meira magn af „bótoxi jurtaríkisins“ í nýju serumi frá Nivea

Tífalt meira magn af „bótoxi jurtaríkisins“ í nýju serumi frá Nivea
Kynning
16.11.2023

Það geta allir fundið eitthvað fyrir jólaundirbúninginn á Svörtudögum Boozt

Það geta allir fundið eitthvað fyrir jólaundirbúninginn á Svörtudögum Boozt
Kynning
08.11.2023

Regus horfir til frjálsrar framtíðar frá Kirkjusandi

Regus horfir til frjálsrar framtíðar frá Kirkjusandi