Ríflega helmingur hefur upplifað skerta starfsgetu á blæðingum – Fáar segja yfirmanninum frá
Greiningarfyrirtækið Yougov hefur gert könnun sem leiðir í ljós að tíðaverkir hafa haft áhrif á starfsgetu ríflega helmings breskra kvenna. Hlutfallið er 52 prósent. Könnunin sýndi að aðeins 27 prósent kvenna hafa greint yfirmanni sínum frá ástæðu þess að þær gátu ekki unnið af fullri getu.
Af þessum 52 prósentum hefur þriðjungur þurft að vera veikur heima vegna verkjanna. BBC greinir frá þessu en þar er haft eftir kvensjúkdómalækninum dr. Gedis Grudzinskas að vinnuveitendur ættu að bjóða konum upp á eitthvað sem kalla mætti tíðafrí en níu af hverjum tíu konum fá að sögn tíðaverki.
Grudzinskas, sem starfar í London, segir að konur ættu að vera opnari hvað tíðaverki áhrærir. „Blæðingar eru náttúrulegar. Sumar konur finna fyrir miklum verkjum og þær bera þann sársauka í kyrrþey. Þær ættu ekki að halda þessu leyndu og fyrirtæki ættu að bjóða konum sem upplifa mikla verki upp á að vera heima á meðan það gengur yfir.“
Rætt er við Nancy Eccles, sem hætti að vinna fulla vinnu vegna tíðaverkja. „Tveimur vikum áður en blæðingarnar hefjast græt ég við minnsta tilefni, hef lítið sjálfstraust og óttast að heimurinn sé að farast. Allt verður yfirþyrmandi,“ hefur BBC eftir henni. „Um leið og ég hef egglos fer prógesterónið [hormón] að flæða og ég verð ofsareið við smávægilegustu aðstæður.
Hún segir að í gegnum tíðina hafi hún ekki látið deigan síga í vinnu en undanfarin tvö ár hefur ástandið versnað. Hún sé kennari og hafi ekki komist klakklaust í gegnum heila kennslustund án þess að þurfa á salernið. Eccles, sem er 48 ára, hefur glímt við fyrirtíðaspennu frá því hún var unglingur.
Hún bíður þess nú að gangast undir legnám til að láta fjarlægja móðurlífið.
BBC ræðir líka við Fionu Morrison, vinnulögfræðing við Brodies LLP í Aberdeen í Skotlandi. Hún segir að slæmir tíðaverkir geti í skilningi laga flokkast sem fötlun. „Bresk lög eru þannig að dómstóll gæti komist að þeirri niðurstöðu að einstaklingur sem glímir við mikla verki, sem aftrar honum frá vinnu, sé óvinnufær. Morrison segir að meta yrði hvert tilvik fyrir sig – óþarfi sé að hafa áhyggjur af holskeflu slíkra mála.
Flestar konur finna mánaðarlega fyrir tíðaverkjum. Þær upplifa sársaukann venjulega sem krampa í kviðarholi en hann getur leitt út í bak og læri. Tíðaverkir geta verið daufir en konur geta einnig upplifað ógleði, niðurgang og höfuðverk. Til er í dæminu að konur á blæðingum fái grindarverki, jafnvel eftir að blæðingum lýkur.
Katy Wheatley er 44 ára. Hún fær svo mikinn höfuðverk þegar hún er á blæðingum að hún missir sjón, stundum á báðum augum. Fyrirvarinn sé lítill sem enginn. „Þegar ég var í fullri vinnu dældi ég í mig verkjalyfjum þegar ástandið var sem verst, auk þess að nota hitapoka. Ég hætti að vinna eftir að ég eignaðist þriðja barnið mitt vegna kostnaðar við daggæslu – en ég hef áhyggjur af því að þetta muni hafa áhrif á vinnu mína ef ég sný aftur út á vinnumarkaðinn.“ Hún þykir of ung til að undirgangast legnám, þrátt fyrir að hafa ítrekað farið fram á það. „Ég er líklega ein fárra sem hlakka til að eldast.“
Grudzinskas bendir á að í Japan sé konum veitt tíðafrí. „Þetta myndi auka vellíðan kvenna á vinnustaðnum, sem væri mjög jákvætt,“ segir hann. „Það vantar líka vitundarvakningu á meðal kvenna um að miklir tíðaverkir geti orsakast af þáttum eins og legslímuflakki.“ Hann segir að það gleymist stundum að konur standi undir helmingi atvinnulífsins. „Ef þær finna stuðning vegna þessa munu þær verða ánægðari í vinnunni og þar af leiðandi farnast betur.“