Vó einu sinni 450 kíló – Læknir hans hrósar honum í hástert
Sex ár eru liðin síðan Bandaríkjamaðurinn Paul Mason gekkst undir lífsnauðsynlega hjáveituaðgerð. Óhætt er að segja að líf hans hafi verið í hættu á þeim tíma. Hann var líklega í hópi þyngstu einstaklinga í heimi og vó hann þegar mest lét hátt í 450 kíló.
Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan þá og hefur Mason verið á hægum en öruggum batavegi. Bandaríska blaðið New York Times fjallaði um mál Masons á dögunum og má segja að saga hans geti verið öðrum hvatning um að gefast ekki upp, þótt á móti blási.
Á þessum sex árum sem liðin eru síðan hjáveituaðgerðin var framkvæmd hefur Mason lést um tæp 300 kíló. Áður en að henni kom þurfti lyftara til að koma honum út úr íbúð sinni og inn í sjúkrabíl. Þó að Mason hafi lést mikið glímir hann enn við umframhúð á líkamanum.
„Hann hefði getað gefist upp fyrir löngu en hann gerði það ekki.“
Á miðvikudaginn gekkst hann undir sína aðra aðgerð sem miðaði að því að fjarlægja umframhúð. 25 kíló af húð voru tekin af kviðnum á síðasta ári og í aðgerðinni á miðvikudag voru fimm kíló fjarlægð af handleggjunum og mjöðmunum. Ljóst er að Mason þarf að gangast undir fleiri aðgerðir af þessu tagi og því á hann enn nokkuð langan veg fyrir höndum.
Í umfjöllun New York Times hrósar læknir Masons honum í hástert. „Hann hefði getað gefist upp fyrir löngu en hann gerði það ekki. Það er eitt af því áhugaverðasta við þetta. Þetta er maður sem hefur barist alla leið,“ segir Jennifer Capla, einn þriggja lækna Masons. Hún segir að aðgerðir af þessu tagi, að fjarlægja umframhúð, séu flóknari í framkvæmd en þær kunna að hljóma og mikill undirbúningur fari í þær.
Mason er Breti og áður en hann fór í hjáveituaðgerðina árið 2010 var hann fangi á eigin heimili í Ipswich á Englandi. Í umfjöllun breskra fjölmiðla á sínum tíma kom fram að Mason hefði verið misnotaður sem barn og lagst í mikið þunglyndi á fullorðinsárunum. Eftir að hafa gengist undir háveituaðgerð flutti hann til Bandaríkjanna. Það gerði hann eftir að Jennifer Capla las viðtal við hann þar sem meðal annars kom fram að enginn læknir á Bretlandseyjum treysti sér til að fjarlægja umframhúð á líkama hans. Jennifer bauðst til að framkvæma slíka aðgerð og hefur Mason nú búið í Bandaríkjunum um nokkurra ára skeið.