Kaffi Duus, Duusgötu 10, Keflavík, er einn vinsælasti matsölustaðurinn á Suðurnesjum. Þar verður mikið um að vera um helgina þegar Ljósanótt gengur í garð. Hljómsveitin Feðgarnir mun halda uppi fjörinu í tjaldi frá kl. 23:00 og fram á nótt föstudags- og laugardagskvöld og hljómsveitin Króm spilar inni á Duus á sömu tímum. Matseðill Duus húss verður í gildi alla helgina, frá fimmtudegi til sunnudags, en hann er svohljóðandi.
Hádegisverðarseðill er frá kl. 11:30 til 15:30 og þar eru í boði fiskréttir og grillréttir sem staðurinn er orðinn vel þekktur fyrir. Einnig rómuð salöt og súpur en súpurnar getur fólk fengið hvorttveggja í brauði eða hefðbundinni skál.
Hefðbundinn matseðill er á milli kl. 14:00 til 18:00 með hamborgurum, samlokum, pasta og barnaréttum. Kaffidrykkir, brauðmeti og tertur eru í boði allan daginn.
A La Carte matseðillinn er frá kl 18:00 til 22:00. Sérstaða Kaffi Duus í mat felst umfram allt fiskréttunum og eru þeir vinsælastir hjá gestum staðarins.
Kaffi Duus var opnað 26. nóvember 1998. Það byrjaði sem lítið kaffihús með sæti fyrir 30 manns og var boðið upp á grillmat og aðra smárétti. Húsið er staðsett við gömlu Duus-húsin við smábátahöfnina í Keflavík, með frábæru útsýni yfir höfnina: Bergið og smábátahöfnin fyrir neðan, sjórinn og fjallasýn í fjarska ef vel viðrar. Þegar dimmir er bergið sem liggur við höfnina upplýst.
Árið 2000 var bætt við 65 sæta hliðarsal með góðu gluggaútsýni yfir smábátahöfnina og bergið. Salurinn hefur notið gríðarlegra vinsælda.
Í janúar 2008 var svo tekinn í notkun nýr salur sem rúmar 65 manns, ásamt fundaraðstöðu á efri hæð með sæti fyrir 30 manns, svo alls getur staðurinn tekið á móti 180 manns í sæti.
Hægt er að vera með allt að þrjá mismunandi hópa í húsinu á sama tíma vegna heppilegrar skiptingar hússins.
Umhverfis húsið er stór og mikil verönd þar sem gestir geta snætt á góðviðrisdögum.