fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
FókusKynning

Tíu sturlaðar staðreyndir um Pokémon Go

Leikurinn sem er að taka yfir heiminn

Ritstjórn DV
Miðvikudaginn 10. ágúst 2016 10:10

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Snjallsímaleikurinn Pokémon Go er svo sannarlega búinn að taka völdin í heiminum og margir hér á Íslandi hafa tekið eftir fólki ráfandi um á öllum tímum sólarhrings í leit að Pokémonum. Margir muna eflaust eftir fyrri útgáfu leiksins sem tröllreið öllu í byrjun aldarinnar, þar sem ungmenni söfnuðu spilum, spiluðu GameBoy og voru teiknimyndaþættirnir sýndir á RÚV. Nú eru þeir komnir aftur tvíefldir.

Fyrir þá sem ekki vita þá gengur Pokémon Go út að safna skrímslum sem kölluð eru Pokémonar, leikmaðurinn hefur svokallað Pokédex sem þarf að fylla til að klára leikinn. Þegar búið að eignast Pokémon þá er hægt að láta þá berjast, þroskast og þróast. Leikmenn geta svo hitt hver annan til að láta Pokémona sína berjast. Alls eru 151 Pokémon í leiknum en finna má 145 þeirra á víðavangi, gera má ráð fyrir að fleiri Pokémonar bætist í hópinn á næstunni en japanski tölvuleikjaframleiðandinn Nintendo verst allra fregna enda rúmlega mánuður síðan leikurinn kom út. Hér má líta nokkrar sturlaðar staðreyndir um þennan leik:

1. Vinsælasta snjallsímaforritið

Innan við viku frá því leikurinn kom út var hann meira notaður af snjallsímaeigendum en Twitter og Facebook Messenger. Fleiri hafa sótt leikinn en Tinder, Snapchat og Instagram til samans.

2. Góð áhrif á einhverf börn

Víða í fjölmiðlum hafa foreldrar einhverfra barna stigið fram og sagt leikinn vera stórkostlegan þegar kemur að því að láta börnin tjá sig. Í Féacebook-færslu lýsir móðir ein í New York í Bandaríkjunum því hvernig sonur hennar Ralph hafi farið úr því að vera nánast ótalandi í að geta ekki hætt að tala um Pokémona við móður sína.

3. Leikurinn byrjaði á aprílgabbi

Í viðtali sem birt var á heimasíðu Nintendo lýstu yfirmenn hjá Nintendo Setsuto Murai og Kento Suga uppruna leiksins. Þann 1. apríl 2014 voru forsvarsmenn Pokémon og Google með sameiginlegan viðburð í Japan, innan Google fyrirtækisins tíðkast að halda frumlega leiki í stað aprílgabbs og í tilefni af viðburðinum var útbúið frumstætt forrit sem gerði starfsmönnum kleift að safna Pokémonum í gegnum kortaforritið Google Maps. Murai lýsti þessari gestaþraut sem mikilli skemmtun sem varð til þess að leikurinn var settur í vinnslu.

4. Leið til að kynnast fólki

Þegar sjaldgæfur Pokémon lætur sjá sig er bókað að fjöldi manns vill klófesta hann, sama gildir um fjöldasamkomur líkt og á Klambratúni fyrir skemmstu þegar fjöldi Pokémonþjálfara kom saman. Dæmi eru um að fólk hafi kynnst á slíkum fjöldasamkomum og tengst vinaböndum sem ná út fyrir heim Pokémona, í náinni framtíð er ekki ólíklegt að við munum frétta af brúðkaupum og barneignum vegna leiksins.

Mynd: EPA

5. Innbrot og hættur

Sjónvarpsáhorfendur á Íslandi hafa vafalaust tekið eftir auglýsingum tryggingafyrirtækis þar sem fólk er hvatt til þess að spila ekki leikinn undir stýri, slíkt er ekki gert að ástæðulausu þar sem nú þegar hefur fjöldi manns slasast eftir að hafa spilað undir stýri. Eins og áður segir þá finnast 145 Pokémonar á víðavangi en síðustu 6 reynast vandfundnir. Hefur þetta skapað samsæriskenningar um að mjög sjaldgæfa Pokémona sé að finna á stöðum á borð við Hvíta húsið og Svæði 51. Nýlegt myndband á YouTube sýnir Pokémonþjálfara reyna að komast inn fyrir varnir bandaríska hersins á Svæði 51 til að freista þess að finna hinn sjaldgæfa Mew, leikmennirnir fundu einungis rafmagnsskrímlið krúttlega Pickachu áður en öryggisverðir vísuðu þeim af svæðinu með vopnavaldi.

6. Líkfundir

Fjölmörg dæmi eru um að lík hafi fundist við Pokémonleit. Ung stúlka fann lík skammt frá heimili sínu í Arizona og ungur drengur fann lík skammt frá kirkju í New Hampshire. Sama gildir um Evrópu, ungir piltar fundu lík í Sviss nýverið. Í öll þessi skipti hafa lögregluyfirvöld lýst því yfir að ástæða líkfundanna hefði verið Pokémonaleit.

7. Leikurinn safnar upplýsingum um þig

Þegar náð er í leikinn þarf tilvonandi Pokémonþjálfari að skrá sig inn í gegnum reikning hjá Google eða skrá sig hjá Nintendo. Skilmálarnir leyfa fyrirtækinu að skoða tölvupóst leikmanna og dagatöl ásamt því að geta ávallt séð hvar Pokémonþjálfarar eru á ferðinni.

Mynd: EPA

8. Bannaður í Sádi-Arabíu

Æðstuklerkar Sádi-Arabíu bönnuðu Pokémon þegar fyrri útgáfur leiksins komu út um aldamótin, ástæðan mun vera að Pokémonskrímslin geta þróast sem samræmist ekki íslamstrú. Sheikh Abdel-Aziz al-Sheikh, æðsti trúarleiðtogi Sádi-Arabíu, ítrekaði Pokémonbannið eftir að Pokémon Go öðlaðist vinsældir í landinu. Í trúartilskipuninni fatwa er Pokémon líkt við skurðgoðatrú og fjárhættuspil, sem er stranglega bannað.

9. Reikningar til sölu

Til að safna Pokémonum þarf að ferðast ansi mikið, David Quintana, 21 árs, sem varð sá fyrsti til að ná öllum 145 sem finnast á víðavangi ferðaðist um 100 kílómetra á 22 dögum. Ástæðan er að ákveðin skrímsli birtast ekki fyrr en búið er að ferðast langar leiðir. Eins og gefur að skilja þá nenna því ekki allir og geta því Pokémonþjálfarar sem eru léttir á fæti selt vinnu sína fyrir háar fjárhæðir. Dæmi eru um að Pokémonreikningur sem kominn er yfir stig 20 í leiknum seljist á hundruð þúsunda króna á netinu.

Mynd: EPA

10. Pokémonar finnast úti um allt

Það er hægt að safna Pokémonum úti um allan heim með snjallsíma og nettengingu. Finna má 142 Pokémona í Bandaríkjunum og því eru dæmi um að ákafir leikmenn þar hafi ferðast til Evrópu eða Asíu í leit að fleirum, en einnig er hægt að skiptast á eggjum við aðra leikmenn til að fylla upp í safnið. Pokémona má ekki einungis finna í bakgörðum eða stórborgum, heldur safnar fólk þessum skrímslum á ólíklegustu stöðum á jörðinni. Í viðtali við vefsíðuna Inverse lýsti sjálfboðahermaðurinn Louis Park því hvernig hann fann vatnspokémoninn Squirtle í fremstu víglínu ISIS í Norður-Írak. Þegar hann fer svo til baka í bækistöðvarnar keppir hann við Kúrdana sem berjast nú við hryðjuverkasamtökin.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Kynning
27.03.2024

„Algjört saunaæði runnið yfir landsmenn“

„Algjört saunaæði runnið yfir landsmenn“
Kynning
19.03.2024

Þú færð allt fyrir ferminguna á Boozt.com

Þú færð allt fyrir ferminguna á Boozt.com
Kynning
29.10.2023

Flýgur með Íslendinga til paradísarinnar Punta Cana í myrkasta skammdeginu – „Ég skildi við kallinn en ekki landið“

Flýgur með Íslendinga til paradísarinnar Punta Cana í myrkasta skammdeginu – „Ég skildi við kallinn en ekki landið“
Kynning
27.10.2023

Jólabjór og opið til miðnættis í Nýju Vínbúðinni

Jólabjór og opið til miðnættis í Nýju Vínbúðinni