Unglingalandsmót UMFÍ
Unglingalandsmót Ungmennafélags Íslands er vímulaus íþrótta- og fjölskylduhátíð sem haldin er árlega, ávallt um verslunarmannahelgina. Mótin eru haldin á mismunandi stöðum en í ár er unglingalandsmótið í Borgarnesi. Skráningu á mótið lýkur laugardaginn 23. júlí en búast má við yfir 10.000 gestum, keppendum, fjölskyldum þeirra og öðrum mótsgestum. Ómar Bragi Stefánsson er framkvæmdastjóri allra landsmóta UMFÍ, þar á meðal unglingalandsmótanna og segir hann að mótin hafi tekist afskaplega vel í gegnum tíðina.
„Við viljum að fjölskyldan sé saman og höfum sagt að sé fjölskyldan ekki saman þessa helgi, hvenær þá? Margir töldu að hreyfingin væri að fara í ranga átt þegar við ákváðum að setja þetta á verslunarmannahelgina en þetta hefur slegið í gegn. Í sjálfu sér erum við ekki í samkeppni við Þjóðhátíð í Eyjum eða hvað annað, þetta er bara einn valkostur sem fólki stendur til boða um þessa helgi. Hér eru okkar prinsipp um vímuefnaleysi í gildi og þeir sem stilla sér upp með okkur í þeim efnum eru hjartanlega velkomnir. Þetta gengur alltaf ótrúlega vel fyrir sig og mótin eru afskaplega skemmtileg,“ segir Ómar.
Keppt verður í 14 keppnisgreinum um helgina og er óhætt að segja að fjölbreytnin sé mikil, til dæmis boltaíþróttir og frjálsar íþróttir, en líka lyftingar og síðan hugaríþróttir á borð við skák og stafsetningu. Keppendur eru á aldrinum 11 til 18 ára. Mótsgjald er 7.000 krónur á hvern keppanda en innifalið í því er þátttaka í öllu öðru sem stendur til boða á mótinu, til dæmis leikjum, kvöldvöku og annarri afþreyingu, auk þess sem dvöl fjölskyldu keppenda er innifalin.
„Fyrir utan þessar keppnisgreinar er líka afskaplega margt annað um að vera. Það er til dæmis verið að leggja nýjan frisbí-golfvöll í Borgarnesi og þar geta allir verið með. Síðan erum við að fá til okkar tvo danska stráka sem eru heimsmeistarar í götufótbolta og þeir verða bæði með sýningu og kenna krökkunum. Það er því heldur betur hægt að finna sér afþreyingu eftir að maður hefur lokið keppni í sinni grein og dagskráin er í fullum gangi fram að miðnætti öll kvöld,“ segir Ómar.
Þess má auk þess geta að landsfrægir listamenn skemmta á kvöldvökunum, til dæmis Amabadama, Dikta, Jón Jónsson, Úlfur Úlfur og fleiri.
Ómar ítrekar að mótið sé fyrir alla krakka á aldursbilinu 11 til 18 ára og snúist ekki um þá sem eru virkir í íþróttum: „Ef til staðar er einstaklingur sem er ekki í fótboltaliði eða körfuboltaliði en langar að vera með þá getur hann skráð sig og við setjum hann inn í lið eða finnum lið fyrir hann.“
Nánari upplýsingar um unglingalandsmótið og skráning eru á heimasíðunni umfi.is.