Útigöngufjölskyldan lætur veðrið ekki stöðva sig
„Við erum mikið fyrir útiveru og datt í hug að gera eitthvað skemmtilegt í kringum það áhugamál.“ Þetta segir Smári Stefánsson, en hann hefur, ásamt konu sinni, Hallberu Gunnarsdóttur, og sonunum Friðriki og Loga, sem báðir eru 8 ára, ákveðið að sofa utandyra 52 sinnum næsta árið.
„Við ákváðum þetta í kringum afmæli strákanna, þann 24. júní, og markmiðið er að ná að meðaltali einni nótt á viku áður en 9 ára afmæli þeirra rennur upp.“
Fjölskyldan stofnaði Facebook-síðuna, Útigöngufjölskyldan, þar sem hún hyggst deila myndum, myndböndum og frásögnum af næturstöðum. „Við hefðum auðvitað getað gert þetta og haldið kjafti, en okkur langaði í leiðinni að hvetja fólk til meiri útiveru. Síðan fjallar um að gista úti, en við ætlum líka að birta góð ráð og frásagnir af ýmsu sniðugu sem við finnum upp á utandyra.“
Smári og Hallbera eru engir nýgræðingar í útivist, en bæði eru þau menntuð íþróttakennarar og stunduðu í kjölfarið útivistarnám í Noregi. Hallbera er grunnskólakennari í Bláskógaskóla á Laugarvatni og er þar verkefnastjóri yfir þróunarverkefni í útikennslu, og Smári kennir útivist við íþrótta- og heilsubraut Háskóla Íslands. „Strákarnir eru líka vanir. Þegar við bjuggum í Bodö í Norður-Noregi á árunum 2012–14 gengu þeir í leikskóla þar sem mikil áhersla var á útivist.“
Smári segir Íslendinga geta lært sitthvað af Norðmönnum þegar kemur að útivist. „Þar er ríkjandi mikill kúltúr í kringum útivist og fólk er ekki að láta smámuni eins og veður hamla sér. Maður verður auðvitað að bera ákveðna virðingu fyrir slæmu veðri, en við erum alltof góð við okkur. Íslendingum þykir afskaplega gott að sitja inni þegar veðrið er slæmt.“
Síðan fjölskyldan ákvað að hefja verkefnið hefur hún gist þrjár nætur utandyra. „Strákarnir áttu afmæli fyrir þremur vikum svo við erum á áætlun. Við gistum í Kerlingarfjöllum, reyndar þrjár nætur í röð. Á endanum verða þetta í það minnsta 52 nætur yfir árstímabil.“
Smári segir að fjölskyldan sé ekki með áætlun, heldur ætli að láta það ráðast hvar gist verður. Þau munu ekki láta vetrarveður aftra sér. „Við höfum verið svo mikið í fjallamennsku og eigum allan búnað sem þarf til að þola kuldann.“
Eflaust gætu margir hugsað sér að stunda meiri útiveru, til dæmis á kostnað skjátíma og sjónvarpsgláps. Smári segir að oft mikli fólk fyrir sér að stunda útivist. Hvaða ráð skyldi hann hafa til þeirra sem vilja taka útigöngufjölskylduna til fyrirmyndar?
„Ég ráðlegg þeim sem eru óvanir að byrja smátt. Þetta þarf ekki að vera svo flókið. Það er líka sniðugt að skoða skipulagðar barnvænar ferðir, til dæmis eins og þær sem Ferðafélag barnanna býður upp á. Í þannig ferðum er hægt að læra ýmislegt og byrja svo sjálfur að skipuleggja sínar eigin ferðir í kjölfarið.“