Skemmtigarðurinn í Grafarvogi hefur opnað Camper Resort, nýtt sérhæft húsbíla-, hjólhýsa- og fellihýsastæði í Reykjavík. „Við munum bjóða upp á góða aðstöðufyrir allar stærðir húsbíla þar sem að aðstaða fyrir þá vantar í Reykjavík enda hefur orðið mikil fjölgun í leigu á húsbílum undanfarin ár. Gisting af þessu tagi er vinsæl við skemmtigarða erlendis,“ segir Eyþór Guðjónsson, eigandi Skemmtigarðsins og bætir við að öll sú þjónusta sem boðið sé upp á í Skemmtigarðinum standi gestum Camper Resort einnig til boða, ýmist frítt eða gegn vægu gjaldi. Ekki stendur til að bjóða upp á hefðbundin tjaldstæði heldur einungis gistingu fyrir ferðamenn á húsbílum, felli- og hjólhýsum.
Fjölbreytt afþreying er starfrækt á svæðinu fyrir alla aldurshópa. Skemmtigarðurinn býður m.a. upp á fótboltagolf,minigolfvöll, frísbígolf, útilasertag og litbolta, svo eitthvað sé nefnt. Við hlið Skemmtigarðsins eru einnig strandblakvellir, hjólabrettaaðstaða og klifurgrind fyrir yngri meðlimi fjölskyldunnar, á vegum Reykjavíkurborgar.
Veitingasala er til staðar á svæðinu og hægt að fá sér pizzur, kjúklingavængi og aðrar léttar veitingar; jafnvel einn ískaldan með grillinu fyrir þá sem það kjósa, og ís fyrir börnin í eftirrétt. Ástríðufullir grillarar geta hlakkað til, því glæsileg grillaðstaða er einnig á staðnum og setbekkir hér og þar um Skemmtigarðinn þar sem fólk getur sest að snæðingi.
Umhverfið í kringum Skemmtigarðinn er fallegt og umkringt íslenskri náttúru með útsýni yfir til Esjunnar. Miðborgin er aðeins í nokkurra mínútna ökufjarlægð og öll sú fjölbreytta afþreying sem Skemmtigarðurinn býður upp á í túnfætinum.
Eyþór segir Skemmtigarðinn stefna að áframhaldandi uppbyggingu í ferðaþjónustu á svæðinu. Camper Resort sé fyrsta skrefið í þá átt enda henti staðsetningin ákaflega vel til þess háttar starfsemi. Fallegar göngu- og hjólaleiðir eru allt í kring sem ýmist liggja niður í miðbæ eða niður að sjó. „Þetta er eiginlega sveit í borg“ segir hann, „falleg náttúra, sögulegir staðir, fjaran í seilingarfjarlægð en samt örstutt í menninguna og miðborgina. Svo erum við steinsnar frá einu aðal „borgarhliðinu“ í Ártúnshöfða þaðan sem leiðir liggja í allar áttir “.
Í tilefni opnunarinnar í sumar verður öllum sem gista í Skemmtigarðinum, boðið upp á 50% afslátt í minigolf og fótboltagolf en hvort tveggja nýtur mikilla vinsælda hjá öllum aldurshópum. Þá verður þrautabrautin líka opin fyrir gesti án endurgjalds. Það ætti því engum að leiðast í Skemmtigarðinum í sumar hvort sem menn ætla bara að leggja sig eða leika sér í leiðinni.
Skemmtigarðurinn er í eigu Eyþórs Guðjónsson og Ingibjargar Guðmundssdóttur en þau reka einnig ferðaskrifstofuna Incentive Travel.
Nánari upplýsingar um Camper Resort er hægt að nálgast á heimasíðunum camperresort.is og www.skemmtigardur.is