„Við spörum ekki áleggið“
Pizzugerð hjá Kaffi-Sel, á bænum Efra-Seli skammt frá Flúðum, á sér 20 ára sögu og fullyrða má að pizzurnar hjá Kaffi-Seli hafi sterk sérkenni enda eru þær orðnar mjög þekktar: „Við byrjuðum smátt en erum núna með tvo ofna þannig að við getum bakað hátt í 40 pizzur á klukkustund, þegar mikið er að gera. Við höfum alltaf lagt áherslu á að nota hráefni úr héraði, t.d. af garðyrkjustöðvunum í kring. Kjötafurðir, hakk og beikon og annað, allt kemur þetta úr héraðinu. Þetta eru því mjög „local“ pizzur. Við fáum til dæmis deigið frá Sindra bakara á Flúðum sem nýlega hóf sína starfsemi hér. Síðan er sósan algjört lykilatriði, leyniuppskrift sem við höfum haldið óbreyttri í 20 ár. Við gerum sósuna alveg frá grunni.“
Þetta segir Unnsteinn Logi Eggertsson, einn eigenda Kaffi-Sels. Hann bætir við að áleggið sé ekki sparað á pizzurnar, enda eru þær þekktar sem sælkerapizzur með ríkulegu og ljúffengu áleggi.
Í sama anda hefur hamborgaramatseðillinn á Kaffi-Seli nýlega verið endurnýjaður. Hamborgararnir eru orðnir sannkallaðir „gourmet“ sælkerahamborgarar, sem bera örnefni úr héraðinu og nöfn þekktra persóna á borð við Fjalla-Eyvind (sjá mynd).
Enn fremur er boðið upp á nokkrar tegundir af súpum, m.a. með hráefni úr héraði, salöt og fleiri rétti á matseðlinum.
Kaffi-Sel er fjölskyldufyrirtæki þar sem þrjár kynslóðir koma að rekstrinum. Hjónin Halldór Guðnason og Ástríður G. Daníelsdóttir stofnuðu staðinn á sínum tíma, fyrir rúmlega 30 árum. Dóttir þeirra, Halldóra Halldórsdóttir, er eiginkona Unnsteins, en auk þessara fjögurra vinna börn Unnsteins og Halldóru mikið á staðnum.
Starfsemin í heild samanstendur af þessum rómaða veitingastað, 18 holu golfvelli og gistiaðstöðu sem nýlega var sett á laggirnar. Golfklúbburinn Flúðir er rekinn sem séreining en öll þjónusta við golfara fer fram á veitingastaðnum. Að sögn Unnsteins er vinsælt hjá fyrirtækjahópum að panta golfhring og grillveislu á veitingastaðnum á eftir. Þá eru pizzuhlaðborð á Kaffi-Seli mjög vinsæl, ekki síst eftir unglinga- og krakkagolfmót. Á hlaðborðinu eru allar pizzur á matseðli í boði, gestir borga sig inn á hlaðborðið og fá sér pizzur eins og þeir geta í sig látið.
Kaffi-Sel er að Efra-Seli, í þriggja kílómetra fjarlægð frá Flúðum. Opið er á staðnum alla daga yfir sumartímann frá kl. 8 á morgnana til 20.30 á kvöldin.
Nánari upplýsingar, matseðla, myndir og fleira má skoða á heimasíðu staðarins, www.kaffisel.is og Facebook-síðu hans, Kaffi-Sel á Facebook.