fbpx
Fimmtudagur 14.nóvember 2024
FókusKynning

Snarl fyrir börn og ungmenni

Ebba Guðný með matreiðslunámskeið

Kolbrún Bergþórsdóttir
Sunnudaginn 12. júní 2016 19:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ebba Guðný Guðmundsdóttir er mörgum kunn enda hefur hún eldað sig inn í hjörtu þjóðarinnar með hollum og góðum mat fyrir alla fjölskylduna. Nýlega hóf Ebba Guðný að kenna matreiðslunámskeið fyrir börn og ungmenni sem kallast Snarlið þar sem markmiðið er að kenna þátttakendum að elda sér hollt og gott snarlfæði.

„Það hefur alltaf brunnið á mér að hjálpa börnum að borða hollt. Ég byrjaði á barnamat af því að þar var ég stödd á sínum tíma með dóttur mína, Hönnu, nýfædda. Síðan hefur vinnan þróast með mér eftir því sem börnin mín eldast. Í dag á ég börn sem koma heim úr skólanum og útbúa sér eitthvert snarl og svo heppilega vildi til að Krónan hafði samband við mig og vildi styðja við verkefni sem miðar að því að vekja börn og ungmenni til meðvitundar um heilbrigt og hollt mataræði og hjálpa þeim til að verða sjálfbjarga í eldhúsinu. Hvaða foreldri hefur ekki fengið símtalið: „Það er ekkert til!“ Úr varð heimasíða, sjónvarpsefni og námskeið sem nefnist Snarlið,“ segir Ebba Guðný aðspurð hvernig verkefnið hófst en hún lauk nýverið við síðasta námskeiðið á þessari önn og eru fleiri fyrirhuguð strax í haust.

En hvert er markmiðið með Snarlinu og hvað leggur Ebba Guðný áherslu á með sinni aðkomu?

„Fyrir mér eru góðar, einfaldar og nokkuð hollar uppskriftir gulls ígildi. Ég reyni að kenna slíkar uppskriftir og grunn sem er bæði ódýr og ekki óhollur. Til dæmis kenni ég hvernig má henda í hinar víðfrægu og bráðhollu vöfflur, gerlausar bollur sem má svo útfæra á alla vegu, einfalda gerlausa kanilsnúða, Chia-graut og mismunandi útgáfur af hollum hristingum svo fátt eitt sé nefnt. Einnig ræðum við um mikilvægi vatnsdrykkju og sparnað sem af því hlýst að dekka vatn, bæði fyrir budduna og líkamann. Þar að auki kem ég inn á matarsóun og hvernig við getum lagt okkar af mörkum til að nýta betur matinn og bera virðingu fyrir honum. Hann er jú eldsneytið okkar. Allt sem við búum til heima er enn fremur hollara og ódýrara en það sem maður kaupir tilbúið úti í búð. Krakkar hafa líka oft nægan tíma til að búa sér til eitthvað eftir skóla og það drepur líka tímann að sýsla í því.“

Ebba er full eldmóðs og hugsjónir hennar teygja sig mun lengra en að hollu mataræði.

„Ég vil ekki vera að búa til eitthvað snúið um að fólk þurfi að vera á sérstöku mataræði til að lifa heilsusamlegu lífi. Það er allt of mikill hávaði í samfélaginu og á netmiðlum varðandi hollustu. Mig langar einfaldlega að gera börn og ungmenni meðvituð um að borða sem fjölbreyttast og sleppa sem minnstu en hafa gæðin góð. Ef við borðum ekki eftirlíkingar af mat heldur það sem er heillavænlegt fyrir umhverfi og líkama þá erum við í góðum málum. Og maður borðar minna þegar maður borðar næringarríkan mat af því líkaminn verður fyrr saddur af næringu. Ég vona að þessi skilaboð nái í gegn til þátttakenda á námskeiðinu. Svo er það þetta með gullna meðalveginn.“

Það leynir sér ekki í rödd Ebbu Guðnýjar að hún hefur trú og metnað fyrir þessu verkefni og hún segist handviss um að þessi vinna geti skilað sér og haft áhrif á matarhætti þátttakanda til frambúðar.

„Já, ég hef á tilfinningunni að þátttakendur fari heim fullir af eldmóði og sjái að þetta er ekki svo erfitt. Í lokin sitjum við saman að góðu hlaðborði og allir smakka allt. Ég tel því að þarna sé verið að sá fræjum og að það skili örugglega heilmiklu.“

Námskeiðin eru þátttakendum að kostnaðarlausu og nálgast má ókeypis uppskriftir og myndbönd á heimasíðunni snarlid.is.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Kynning
27.03.2024

„Algjört saunaæði runnið yfir landsmenn“

„Algjört saunaæði runnið yfir landsmenn“
Kynning
19.03.2024

Þú færð allt fyrir ferminguna á Boozt.com

Þú færð allt fyrir ferminguna á Boozt.com
Kynning
29.10.2023

Flýgur með Íslendinga til paradísarinnar Punta Cana í myrkasta skammdeginu – „Ég skildi við kallinn en ekki landið“

Flýgur með Íslendinga til paradísarinnar Punta Cana í myrkasta skammdeginu – „Ég skildi við kallinn en ekki landið“
Kynning
27.10.2023

Jólabjór og opið til miðnættis í Nýju Vínbúðinni

Jólabjór og opið til miðnættis í Nýju Vínbúðinni