Vísir hf. Grindavík
Vísir er rótgróið, kröftugt og framsækið íslenskt sjávarútvegsfyrirtæki sem fagnaði hálfrar aldar afmæli í fyrra. Fyrirtækið er til húsa að Hafnargötu 16 í Grindavík. Vísir leggur áherslu á ábyrgar veiðar, hátæknivinnslu og vörugæði. Fyrirtækið býr yfir góðum skipaflota útbúnum til línuveiða og rekur saltfiskvinnslu og frystihús í Grindavík. Afurðir Vísis eru fjölbreyttar, unnar úr fyrsta flokks hráefni, og framleiddar fyrir breiðan hóp kröfuharðra viðskiptavina vítt og breitt um heiminn.
Vísir hefur á að skipa stórum hópi af traustu og ánægðu starfsfólki sem margt hvert hefur langan starfstíma hjá fyrirtækinu. Vísir hefur ávallt lagt mikla áherslu á ánægju og vellíðan starfsfólks síns en síðustu árin hefur verið lagður aukinn kraftur í starfsþróunar- og mannauðsmál hjá fyrirtækinu. Um þetta segir Erla Ósk Pétursdóttir, gæða- og þróunarstjóri fyrirtækisins:
„Við tókum þátt í verkefninu Virkur vinnustaður á vegum VIRK Starfsendurhæfingarsjóðs en það stóð yfir árin 2011 til 2014. Reglulegar kannanir voru hluti af verkefninu þar sem m.a. var spurt um líðan starfsfólks. Þær mælingar komu prýðilega út hjá okkur en engu að síður voru nokkur atriði sem þörfnuðust athugunar, til dæmis varðandi starfsþróun, og við ákváðum að huga sérstaklega að henni.“
Í könnununum kom fram að ef fólk taldi möguleika til starfsþróunar vera meiri þá leiddi það til betri líðunar á vinnustaðnum. „Fólk eyðir svo miklum tíma í vinnunni og því er afskaplega mikilvægt að því líði vel þar,“ segir Erla. Símenntun hefur alltaf verið í gangi hjá Vísi en eftir verkefnið með VIRK var ákveðið að gera hana markvissari.
Í byrjun árs 2015 gerði Vísir svo samning við Landsmennt og Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum (MSS) um Fræðslustjóri að láni til að meta þörfina á fræðslu fyrir starfsfólkið. Einstaklingsviðtölin leiddu meðal annars í ljós að starfsfólk vildi gera meira saman, hittast og þess háttar. Þess vegna hefur hópefli verið aukið mikið á vinnustaðnum auk þess sem starfsmannafélagið var endurvakið.
„Við höfum reglulega verið með fræðslu í gangi fyrir starfsmenn, til dæmis þegar bátarnir eru komnir á sjó eftir jól og páska og enginn fiskur er í húsi. En við vildum gera þetta markvissara. Með einstaklingsviðtölum var leitað eftir upplýsingum um hvað fólk vildi læra og út frá þeim niðurstöðum var sett upp fræðsluáætlun til næstu ára.“
Starfsfólk hjá Vísi er af alls um tíu þjóðernum og aðeins um helmingur starfsliðsins er Íslendingar. Það er því mjög mikilvægt að erlent starfsfólk fyrirtækisins læri líka íslensku og styrkir Vísir íslenskunám starfsfólks.
„Íslenskukunnáttan er mikilvæg varðandi starfsanda og greið samskipti starfsfólks og hún er ekki síður mikilvæg upp á öryggi í vinnslunni,“ segir Erla.
„Við höfum verið í góðu sambandi við Fisktækniskóla Íslands, sem er staðsettur hér í Grindavík, og hefur verið að mennta fólk sem fisktækna en einnig að meta reynslu fólks úr sjávarútvegi sem vill fara í frekara nám. Sem dæmi um þetta hefur fólk farið frá okkur í gæðastjórnun. Þannig hefur kona ein, sem lengi hefur starfað hjá okkur í fiskvinnslu, nú hafið störf hjá okkur sem gæðastjóri hálfan daginn eftir að hafa lokið gæðastjóranáminu í Fisktækniskólanum,“ segir Erla.
Hún bendir á að sjálfvirkni hafi aukist mjög í sjávarútvegi og núna vinni vélar og tæki þau störf sem voru einhæfust og oftast talin leiðinlegust. Samhliða þessari tæknivæðingu hefur einnig verið mikil nýsköpun, og starfsþróun starfsfólks hefur því í auknum mæli beinst að tækniþekkingu og gæðastjórnun.
Vísir mun einmitt kynna nýsköpun og hátækni á vegum fyrirtækisins á opnu húsi að Miðgarði 3 um sjómannahelgina. Opið verður laugardag og sunnudag frá kl. 14–17. Allir velkomnir og þá sérstaklega þeir sem áhuga hafa á verkfræði, tækni og nýsköpun í matvælaþróun og vinnslu.