Núvitund í golfi og ýmsu öðru – Meira jafnvægi – Fleiri ánægjustundir
Ásdís Olsen hefur verið iðin að undanförnu við að kenna Íslendingum mindfulness (gjörhygli/núvitund). Hún er háskólakennari, fjölmiðlakona og rekur Mindfulness miðstöðina, sem býður upp á alls konar námskeið, fyrirlestra og vinnusmiðjur um efnið, bæði fyrir einstaklinga og fyrirtæki.
Við náðum tali af Ásdísi og fengum að heyra allan sannleikann um núvitund og hvernig iðkun þess getur auðgað lífið.
„Núvitund er eitt þeirra ráða sem fólk er í auknum mæli að nota til að ráða við streitu og hraða nútímans,“ segir Ásdís, „með ástundun styrkjast þau svæði heilans sem hafa að gera með vellíðan og hamingju. Samkvæmt nýjum rannsóknum verða marktækar breytingar á heilastarfseminni eftir aðeins 8 vikur af ástundun. Við getum í raun búið til nýjar taugatengingar og styrkt „hamingjusvæðin“ í heilanum. Þannig næst meiri yfirvegun og einbeiting, öflugri sköpun, betra minni og skarpari hugsun.“ Ásdís segir alla geta stundað núvitund og að nokkrar mínútur á dag geti gert gæfumuninn fyrir marga.
Það nýjasta sem er í boði hjá Ásdísi er „mindful“-golf – námskeiðið Haus í holu – fyrir þá sem stunda golf og vilja taka iðkunina á annað stig. „Allir sem stunda þá íþrótt sér til skemmtunar og afþreyingar vita hvað einbeiting og skýr hugur skiptir miklu máli. Ég er nýkomin frá Spáni þar sem ég kenndi „mindful“ golf og er sannfærð að núvitund getur aukið ánægju og árangur golfara til að stunda þessa frábæru íþrótt.“
Það dylst fáum að núvitund er mikið í umræðunni og sumir hafa talað um tískufyrirbæri. „Málið er að núvitund virkar. Fyrir marga er þetta svarið við hlutum sem eru okkur til trafala í daglegu lífi, eins og kvíða, streitu og áhyggjum. Við náum hugarró og sjálfsvitund og verðum hæfari til að njóta og upplifa að vera til.“
Er hægt að gera allt í núvitundar-gír – elda, ryksuga og stunda kynlíf?
„Já, það er meira varið í allt með meðvitund. Núvitund býður þessa meðvitund um það sem er að gerast á meðan það er að gerast. Við fáum tækifæri til að upplifa í hæstu hæðum. Ég get vel hugsað mér að vera með hugann annars staðar þegar ég er að ryksuga – að blasta tónlist og fíla hana. En við viljum síður missa af upplifuninni af kynlífi. Með núvitund lærum við að tengja við skynfærin, við aukum næmi okkar og fáum tækifæri til að njóta til fulls.“
Þeir sem stunda núvitund ná, að sögn Ásdísar, betri tengingu við sjálfa sig og aðra. „Fólk verður flinkara við að lifa í núinu og nálgast sín viðfangsefni út frá forsendum sjálfsvinsemdar og jákvæðrar afstöðu. Árangurinn er í rauninni ótrúlega fljótur að skila sér. Sem dæmi um það hef ég verið með stjórnendanámskeið í því sem kallast Mindful Leadership ásamt dr. Þórði Víkingi Friðgeirssyni. Þar mælum við árangur og breytingar. Á aðeins 14 dögum mælist allt að 40 prósent betri árangur á sumum sviðum, til dæmis við að ná valdi á kvíða og streitu og auka einbeitingu.“
En skyldi Ásdís sjálf alltaf vera í sjúklega góðu jafnvægi? Hún hlær dátt og svarar svo:
„Já, ég á miklu fleiri ánægjustundir og læt fólk síður fara í taugarnar á mér. Ég tala um líf mitt fyrir og eftir að ég kynntist núvitund. Það er miklu skemmtilegra að lifa núna.“
Fyrir utan núvitundar-námskeiðið Haus í holu, sem Ásdís er með í boði þessa dagana, er ýmislegt annað á döfinni. „Það er svo margt á döfinni að það er spurning hvar skal byrja. Í fyrsta lagi er ég með núvitundar-námskeið fyrir almenning. Þessi námskeið hafa verið gífurlega vinsæl í mörg ár og verða áfram á dagskránni. Svo fer meiri og meiri tími í fyrirtækjanámskeiðin okkar Þórðar Víkings. Þar tökum við fyrirtæki og skipulagsheildir fyrir og freistum þess að bæta skipulag, starfsvenjur og árangur í anda núvitundar og nútíma stjórnunarhátta.“