Notagildið kemur á óvart – Góðar fréttir fyrir grænkera
Neyðin kennir naktri konu að spinna, já og vegönum að finna út úr alls konar hlutum varðandi fæðu.
Það liggur í hlutarins eðli að þeir sem aðhyllast vegan mataræði eru skapandi og útsjónarsamir, enda neyta þeir engra dýraafurða. Það á ekki eingöngu við kjöt og fisk, heldur egg, mjólkurvörur, gelatín og allt annað sem unnið er úr dýrum á einhvern hátt. Þannig er til dæmis „mjólk“ unnin úr möndlum, og sojabaunir notaðar í búa til ostlíki, kjötlíki, ís og ýmislegt annað.
Það hefur valdið töluverðum heilabrotum að finna eitthvað sem getur komið í staðinn fyrir egg í matargerð, og þar til nýlega var það varla hægt. Eggið er svoddan kraftaverk frá náttúrunnar hendi, sérstaklega eggjahvítan, sem hægt er að nota til að töfra fram ýmis fæðuundur eins og marens, makkarónur, lauflétt soufflé og frosting á tertur. Þetta hafa veslings veganarnir farið á mis við að miklu leyti.
Þar til einhverjum snillingnum datt í hug að prófa að þeyta safann af kjúklingabaunum í dós! Það hljómar kannski furðulega, en þegar safinn, sem kallast aquafaba, er þeyttur, verður útkoman skjannahvítt, stírft frauð sem hagar sér alveg eins og eggjahvíta.
Frauðið er hægt að nota í alla matargerð sem krefst stífþeyttrar eggjahvítu. Af því er dálítill baunakeimur sem hverfur alveg við eldun.
Aquafaba marens
Safi úr einni dós af kjúklingabaunum
135 g sykur
Þeytið safann þar til hann stífnar (10 mínútur á hressum hraða). Bætið sykri út í hægt og rólega. Notið bökunarplötu með bökunarpappír. Setjið blönduna á bökunarpappírinn með teskeið – eins og smákökur. Bakið í 1.5 -2 tíma, við 100°C, þar til marenskökurnar eru þurrar og harðar viðkomu.