fbpx
Miðvikudagur 13.nóvember 2024
FókusKynning

Körfuboltastjarna úr Hveragerði á fullum skólastyrk í New York

„Ég er ung og hef engu að tapa“

Ritstjórn DV
Mánudaginn 2. maí 2016 07:25

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Körfuboltastelpan Dagný Lísa Davíðsdóttir er 19 ára Hvergerðingur sem hefur undanfarin tvö ár verið búsett í Bandaríkjunum þar sem hún stundar nám í menntaskóla, býr á heimavist og spilar körfubolta. Hún segir reynsluna mjög dýrmæta og draumi líkasta.

Spilaði með strákunum

Þegar Dagný Lísa var sex ára gömul byrjaði hún að æfa körfubolta með Hamri í Hveragerði. Með árunum flosnaði upp úr kvennaliðinu og þegar hún var komin í 6. bekk byrjaði hún að æfa með strákum því stelpurnar náðu ekki lengur að mynda lið. Eftir tveggja ára leik með strákunum byrjaði Dagný Lísa að spila með meistaraflokki Hamars, sem miðað við aldur hennar þá var afar sjaldgæft.

„Já, ég var frekar ung og það er vissulega fáheyrt að byrja að æfa með meistaraflokki á þessum aldri. Ég mæli ekkert endilega með því fyrir alla en þetta hentaði mér vel. Ég var snemma mjög hávaxin og út úr þessu fékk ég alveg frábæra reynslu. Ég spilaði svo með meistaraflokki Hamars í fjögur ár eða þar til ég flutti hingað út.“

Lífið í West Chester í Pennsylvaníu segir Dagný Lísa ekki vera frábrugðið sveitalífinu í Hveragerði enda er skólinn hennar staðsettur aðeins utan við bæinn sem er lítill og íbúar um 20 þúsund.

„Þetta er voða mikið úti í sveit en hér er hvort tveggja stór skógur og stöðuvatn. Maður er rosalega frjáls hérna og þetta hentar mér mjög vel. Ég hef aðlagast fljótt og bjóst raunar við meiri erfiðleikum við flutningana út. Stærsta breytingin er í rauninni að ég bý ekki lengur hjá mömmu og pabba. Það er ekkert elsku mamma hér! Svo var líka skrítið að tala ensku við alla allan daginn. Mér fannst erfitt að geta ekki skipt yfir í íslensku í smá stund og þurfa til dæmis að margfalda og deila á ensku. En eins og ég segi þá vandist þetta mjög fljótt.“

Jafnræði milli skóla og íþrótta

Í skólanum sem Dagný stundar nám við fylgjast íþróttirnar og skólinn algjörlega að og það er ekki í boði að standa sig vel á aðeins öðru sviðinu.

„Hér er ég með stelpum í liði sem eru líka með mér í stærðfræði og efnafræði. Þjálfarinn minn vinnur í skólanum mínum og ég hitti hann á göngunum í frímínútum. Kennararnir mínir fylgjast grannt með gangi mála í körfunni og þjálfarinn veit hvernig námið gengur. Krakkarnir sem standa sig ekki í skólanum fá því ekki að spila og ef þú stendur þig bara í körfunni þá er það ekki nóg. Þetta fyrirkomulag býður upp á meiri skilning á báða bóga og mikið er lagt upp úr því að finna gott jafnvægi milli íþróttanna og námsins. Heima eru þessir þættir alveg aðskildir og það getur gert það flóknara að standa sig vel í hvoru tveggja námi og íþróttum.“

Þá virðist Dagný Lísa hvorki vera í vandræðum með námið né íþróttirnar enda hafa þjálfarar úr háskólum víðs vegar í Bandaríkjunum sett sig í samband við hana og hún var valin á svokallaðan Dean’s-lista fyrir framúrskarandi námsárangur. Sjálf gerir Dagný Lísa ekki mikið úr velgengni sinni en segist vera búin að skrifa undir samning með fullum skólastyrk við Niagara University rétt fyrir utan Buffalo í New York-fylki fyrir næsta haust.

„Fyrir mig var það mikið afrek að komast á Dean’s-listann. Maður kemst á þann lista fyrir góða hegðun og samskipti við kennara og samnemendur en einnig þarf maður að vera með yfir 8,5 í öllum fögum. Ég ætla ekki að segja að þetta hafi verið auðvelt og fyrir mig var þetta heilmikið afrek. Svona kerfi er í öllum skólum í Bandaríkjunum og það er horft til þessara lista þegar fólk er valið inn í háskóla. Ég stefndi alltaf að því að fara til Bandaríkjanna í háskóla, en að vera hér í menntaskóla líka er algjör bónus. Þetta er svo ótrúlegt því ég var búin að skoða og kynna mér alls konar háskóla áður en ég flutti hingað og svo eru allt í einu þjálfarar úr þessum sömu háskólum farnir að hafa samband við mig, senda mér sms og kynna sig fyrir mér. “

Gleðin leynir sér ekki enda hefur Dagný Lísa svo sannarlega komist á þann stað sem hún ætlaði sér. Að lokum leggur hún áherslu á að jafnaldrar hennar noti þetta tímabil í lífinu til þess að láta drauma sína rætast.

„Ég er ung og hef engu að tapa og hefði ekki trúað því hvað þessi reynsla hefur gert mikið fyrir mig. Ég hvet jafnaldra mína til þess að nýta þetta tímabil í að gera það sem þeir virkilega vilja gera.“

Það verður spennandi að sjá hvert framtíðin leiðir þessa ótrúlega efnilegu stelpu sem horfir full eftirvæntingar fram á veginn.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Kynning
27.03.2024

„Algjört saunaæði runnið yfir landsmenn“

„Algjört saunaæði runnið yfir landsmenn“
Kynning
19.03.2024

Þú færð allt fyrir ferminguna á Boozt.com

Þú færð allt fyrir ferminguna á Boozt.com
Kynning
29.10.2023

Flýgur með Íslendinga til paradísarinnar Punta Cana í myrkasta skammdeginu – „Ég skildi við kallinn en ekki landið“

Flýgur með Íslendinga til paradísarinnar Punta Cana í myrkasta skammdeginu – „Ég skildi við kallinn en ekki landið“
Kynning
27.10.2023

Jólabjór og opið til miðnættis í Nýju Vínbúðinni

Jólabjór og opið til miðnættis í Nýju Vínbúðinni