fbpx
Miðvikudagur 13.nóvember 2024
FókusKynning

Rósmarínið ómissandi

Auður Rafnsdóttir er höfundur bókar um kryddjurtir

Kolbrún Bergþórsdóttir
Fimmtudaginn 14. apríl 2016 10:25

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Auður Rafnsdóttir er höfundur bókarinnar Kryddjurtarækt fyrir byrjendur. Þar fjallar hún um sáningu og umhirðu kryddjurta og segir frá aðferðum til að þurrka, frysta og geyma kryddjurtir. Auk þess eru uppskriftir í bókinni og hugmyndir að nýtingu kryddjurta.

Spurð um áherslur í bókinni segir Auður: „Fyrri hluti bókarinnar fjallar um kryddjurtir allt frá því maður sáir þeim þangað til maður notar þær. Í seinni hlutanum eru upplýsingar um hverja kryddjurt fyrir sig. Í bókinni eru sérstök minnisblöð þannig að fólk geti nóterað hjá sér eitt og annað varðandi ræktunina. Þarna eru líka uppskriftir að ýmsu sem er einkennandi fyrir hverja kryddjurt, eins og kryddolíum, sósum, mauki og fleiru.“

Auður heldur utan um vinsæla síðu kryddjurtaræktenda á Facebook. „Þessi síða varð til vegna þess að vinir og vandamenn hringdu mjög oft til að spyrja mig um ýmislegt viðvíkjandi kryddjurtum. Ég vinn hjá Creditinfo þar sem safnað er saman upplýsingum alla daga og því var ofarlega í huga mér að geyma upplýsingar um kryddjurtir á einum stað. Þess vegna varð Facebook-síðan til og þar er fólk að skiptast á ráðum og uppskriftum. Segja má að þessi síða hafi síðan orðið kveikjan að þessari bók. Ræktun kryddjurta er áhugamál margra í dag og skýrist af miklum matreiðsluáhuga fólks.“

Fólk gefst oft upp

Áhugi Auðar á kryddjurtum vaknaði fyrir um tuttugu árum. „Ég hef mjög gaman af að elda og sá að kryddjurtir skipta öllu máli í matreiðslu, þær gefa aukatón og aukabragð. Ég hef í gegnum árin verið að prófa mig áfram með kryddjurtir og fer ekki alltaf hefðbundnar leiðir. Um daginn eldaði ég lax með rósmarín. Það eru margir sem telja að rósmarín passi bara með lambakjöti og kartöflum, en það má sannarlega nota það á fjölbreytilegri hátt. Það er um að gera að prófa sig áfram í notkun á kryddjurtum.“

Hvort ráðleggurðu fólki að nota ferskar eða þurrkaðar kryddjurtir?

„Ég nota þurrkaðar þegar ég er að elda en set síðan þær fersku út í réttinn rétt áður en hann er borinn fram og þá er bragðið sem ferskast.“

Hver eru helstu mistökin sem fólk gerir í sambandi við kryddjurtir?

„Þegar kemur að ræktuninni gefst fólk oft upp. Maður gerir alltaf mistök í kryddjurtaræktun en ég vandi mig á það að skrifa niður hjá mér hvað ég gerði vitlaust og lærði af því. Lykilatriði er góð mold, góð birta, næring öðru hverju og að klippa jurtina rétt. Þá á þetta ekki að misheppnast. Svo verður maður að sinna ræktuninni og kíkja á jurtina á hverjum degi.

Vandamálið hjá okkur Íslendingum eru þessir myrku vetrarmánuðir. Þá hef ég nýtt mér innigarðana. Ef maður kaupir græðlinga í maí og hefur góða mold og góða birtu þá er maður komin með risaplöntu í ágúst-september.“

Fólk á oft í erfiðleikum með að halda lífi í ferskum kryddjurtum og veit heldur ekki hvernig best er að nýta afganga. Áttu ráð handa þessu fólki?

„Lykilatriði er góð mold, góð birta, næring öðru hverju og að klippa jurtina rétt. Þá á þetta ekki að misheppnast.“

„Ef maður kaupir kryddjurtir í pottum þá á að setja þær strax í góða mold. Ef maður kaupir þær afskornar og á síðan afgang þá setur maður þær í vatn og þá fá þær rætur rétt eins og hvert annað blóm, maður skellir jurtinni síðan í mold eða klippir hana niður og þurrkar eða frystir. Það er um að gera að nýta afganga, það er allt of algengt að fólk hendi þeim í ruslið. Ef maður á til dæmis afgang af fáfnisgrasi eftir að hafa búið til béarnaise-sósu þá er hægt að blanda afganginum saman við mjúkt smjör og setja í frysti og þá á maður efni í næstu béarnaise-sósu.“

Áttu þér uppáhaldskryddjurt?

„Ég á mjög erfitt með að gera upp á milli kryddjurta en mér finnst rósmarín ómissandi. Ég er líka hrifin af fáfnisgrasi, án þeirrar kryddjurtar væri béarnaise-sósa bara hollandaise-sósa. Þar er sannarlega munur á bragði með eða án kryddjurtarinnar.“

Krydd og hollusta

Í hugum flestra standa kryddjurtir fyrir hollustu og Auður er spurð hvort þannig sé það raunverulega. „Það er sagt að svo sé,“ segir hún. „Á sínum tíma, þegar byrjað var að rækta kryddjurtir, eða lyfjagrös eins og það var þá kallað, í urtagarðinum hjá læknasetrinu úti á Nesi var það ekki gert til að bragðbæta matinn heldur til að bæta heilsuna. Sumar jurtirnar voru taldar lækna magakvilla, aðrar hálskvilla og höfuðkvilla og enn aðrar þóttu slakandi. Í framtíðinni langar mig til að skoða hollustuþátt kryddjurta enn betur.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Kynning
27.03.2024

„Algjört saunaæði runnið yfir landsmenn“

„Algjört saunaæði runnið yfir landsmenn“
Kynning
19.03.2024

Þú færð allt fyrir ferminguna á Boozt.com

Þú færð allt fyrir ferminguna á Boozt.com
Kynning
29.10.2023

Flýgur með Íslendinga til paradísarinnar Punta Cana í myrkasta skammdeginu – „Ég skildi við kallinn en ekki landið“

Flýgur með Íslendinga til paradísarinnar Punta Cana í myrkasta skammdeginu – „Ég skildi við kallinn en ekki landið“
Kynning
27.10.2023

Jólabjór og opið til miðnættis í Nýju Vínbúðinni

Jólabjór og opið til miðnættis í Nýju Vínbúðinni